Jæja, stjórnin féll ekki vegna tæknigalla. Það var ekki atkvæðafjöldi heldur kosningakerfið sem olli þessu. Langminnst fylgi er á bak við hvern mann Sjálfsstæðisflokks. Atkvæði Íslandshreyfingarinnar féllu dauð þó að hún hefði í raun fylgi upp á tvo þingmenn. Sjálfur er ég á því að það hefði átt að leysa kaffibandalagið upp fyrir löngu síðan, um leið og ljóst var að Jón Magnússon væri kominn til áhrifa í Frjálslynda flokknum.
En stjórnin er de facto fallin. Það að halda áfram á eins mann meirihluta og minnihluta atkvæða er að öllum líkindum útilokað.
Mitt álit á stöðunni er að við ættum að reyna að mynda stjórn með Samfylkingu og Framsókn. Það eru ekki allir sem eru hrifnir af þessu en ég held að þetta sé það besta sem mögulegt er. Mér er sama um væl um að það sé svo erfitt í þriggja flokka stjórn. Ég held að þingmannahópur Framsóknar sé alveg þannig að hægt sé að vinna með honum. Valgerður væri líklega erfiðust vegna þess að hún hefur verið fremst í stóriðjunni. Það er samt alveg hægt að komast yfir slíkt.
En við eignuðumst ákaflega góðan varaþingmann í nótt.