Ég hef tengsl inn í þingflokk Framsóknar. Þau eru reyndar ákaflega lítil. Hið augljósa er að ég hef setið tíma með Bjarna Harðarsyni. Hann er þjóðfræðinemi og mig grunar að útskrift hans seinki eitthvað aðeins. Metnaðarleysi að taka Alþingi fram yfir þjóðfræðina.
Jafnvel minni eru tengsl mín við þriðja þingmann Framsóknar í Norð-austurkjördæmi. Fyrir 11 árum var sumarvinnan mín í Tónlistarskóla Akureyrar/Náttúrufræðistofnun Norðurlands. Ég var titlaður sem aðstoðarhúsvörður ef ég man rétt. Á sama tíma var Höskuldur Þórhallsson að vinna sem safnvörður í Náttúrugripasafni Akureyrar. Þessar stofnanir voru allar í sama húsinu og ég leysti Hössa stundum af svo að hann kæmist í hádegismat. Þegar ég spái í það þá minnir mig endilega að komið hafi verið sjónvarp þarna niðri á safni sem var notað til að horfa á Ólympíuleikana í Atlanta. Ég held að við höfum þarna horft saman á Jón Arnar Magnússon málaðan í andlitinu keppa. Höskuldur er líka sonur Þórhalls Höskuldssonar prests sem kenndi mér kristinfræði í eitt ár (gaf mér alltaf tíu) og fermdi mig. Þó það komi kannski einhverjum sem ekki þekkja mig á óvart þá líkaði mér alltaf vel við hann (og var uppáhaldsnemandinn hans).