Hvernig er vefrit skilgreint?

Tómas Hafliðason kvartar yfir því að Stefán Pálsson tali ekki um Deigluna þegar hann telur upp elstu vefrit landsins. Þetta vekur upp spurningar um hvernig hugtakið vefrit er skilgreint og hvernig það er aðgreint frá bloggi. Ég skrifaði færslu um þetta á sínum tíma og sagði:

Vefrit birtir reglulega greinar (ólíkt bloggum sem eru yfirleitt óregluleg, bara þegar bloggarinn er í stuði), vefrit hafa marga höfunda (þó er til fyrirbrigðið hópblogg en flest blogg eru með skoðunum einstaklings), vefrit hafa ritstjórn, vefrit hafa að jafnaði lengri greinar en blogg (Björn Bjarna er þarna frekar sérstakur) og vefrit er yfirleitt ekki á persónulegu nótunum á meðan blogg eru það oft.  Ég held að þessi atriði myndi aðgreina blogg og vefrit nokkuð vel

Deiglan byrjaði í febrúar 1998 og kallaði Borgar Þór stofnandi síðuna vefrit. Hann var hins vegar einn með hana í tvö og hálft ár. Eftir að hafa skoðað lauslega þetta fyrsta skeið Deiglunar þá sé ég ekki að hægt sé að kalla hana vefrit á því tímabili. Ég held að það sé erfitt að kalla Deigluna annað en blogg á því tímabili. Borgar sér einn um þetta og birtingar eru óreglulegar. Vissulega er bloggið ópersónulegt eftir því sem ég sé en það er ekkert einsdæmi. Ég skoðaði líka Deigluna eftir að fyrstu viðbótapennarnir bættust við og þá virtist þetta vera fyrst og fremst blogg eins manns með gestapennum. Einnig var birting óregluleg. Ég myndi segja að 5. apríl 2001 væri fínn dagur til að miða við sem fæðingu Deiglunar sem raunverulegs vefrits. Þann dag er fyrsta greinin sem eignuð er ritstjórn. Það má samt líklega finna dagsetningu sem er aðeins fyrr. Frelsið var lengst af aðalvefrit ungra Sjálfsstæðismanna og ég tók fyrst eftir Deiglunni 2001-2002 sem samkeppni við það.

Ef við myndum nota hugtakið vefrit yfir Deigluna eins og hún var fyrst um sinn þá gætum við allt eins sagt að Moggabloggið sé fullt af vefritum. Borgar er ekki eini bloggarinn sem hefur skilgreint bloggið sitt sem vefrit (þó hann hefði hugsanlega skilgreint það öðruvísi ef hugtakið blogg hefði verið komið í almenna notkun þegar hann fór af stað) og sjálfan sig sem ritstjóra. Hann má þó vera stoltur af því að honum tókst að lokum að gera bloggið sitt að vefriti.