Leikskólabörn í Strætó

Ég held að allir leikskólar í Reykjavík séu að ferðast um með Strætó í þessari viku. Ég hef síðustu daga ítrekað lent í vögnum fullum af leikskólabörnum. Það er augljóslega fróðlegt. Í morgun lærði ég að Hús verslunarinnar minnti einn dreng á „fokk“. Ég fékk síðan að heyra að ef drengurinn myndi berjast við félaga sinn í skotbardaga þá myndi sá fyrrnefndi skjóta þann síðarnefnda í augað. Kannski var hann að horfa á Godfather.

Annars þá hefði verið heppilegt ef leikskólarnir hefðu kosið síðustu viku sem „ferðumst með Strætó“ viku. Þá voru fleiri ferðir til að taka við öllum þessum börnum og gamalmenni þyrftu ekki að standa í Strætó.

Af hverju spyr enginn forsvarsmenn Strætó hvort þeir noti eigin þjónustu og síðan spyrja hvers vegna ekki (hér geri ég ráð fyrir að svarið sé nei)?  Mig grunar að þeim finnist þjónustan ekki nógu góð til að þau geti það. Um leið er komið svarið við hvernig við getum fjölgað farþegum – með því að bæta þjónustuna!
Ég íhugaði að nota Strætómynd Matta við þessa færslu en ákvað að sleppa því.