Ferðadagbókin mín í fullri lengd. Stefni á að skrifa styttri ferðasögu.
Ferðasaga
Það gekk illa að fá hvíld í gær. Ég fór ekki í Odda af því að ég var veikur og hékk því heima. Ég beið frá 13-16 eftir manninum sem ætlar að redda garðinum en hann kom ekki. Þegar ég loks komst upp í rúm þá náði ég í raun ekkert að sofa. Við fórum á American Style áður en við lögðum af stað. Það gekk fljótt og vel að innrita okkur. Ég þurfti reyndar að fara úr beltinu en það hef ég aldrei þurft að gera áður. Mér sýnist að fríhöfnin sé orðin minna spennandi eftir að Skífan og Elkó fóru að vera með búðir þar. Allavega sá ég lítið spennandi. Ég keypti Fragile Things eftir Neil Gaiman í Eymundsson og hef því eitthvað nýtt að lesa ef ég hef tíma.
Það gekk eitthvað hægt að opna út í vél, það var ekki gert fyrren um hálftíma eftir áætlun. Í vélinni kom upp sú staða að kona var með barn (reyndar ekki sitt) sem var kannski um fjögurra ára við hliðina á okkur en barnið var ekki með sérsæti. Ég gaf eftir mitt sæti og sat því í sætaröðinni fyrir framan Eygló (hún við glugga, ég við gang). Ekki var þessi fórn mín metin nógu mikils til þess að Flugleiðir redduðu mér púða til að ég gæti lagt mig í vélinni. Þeir voru allir búnir. Kannski að það sé ekki augljóst að margir eru á þeim buxunum að leggja sig í næturflugi? Við lögðum af stað um svona hálftvö eftir miðnætti. Ég sofnaði ekkert á leiðinni. Sólin var ægifögur þegar við fórum í loftið. Hún var rauðari en ég man eftir að hafa séð hana áður.
Mynd flugsins var reyndar góð, Stand by me. Það voru reyndar endalaus vandræði með hljóðið í henni. Fyrst var endalaust vesen að finna stöðina fyrir hljóðið og síðan var hljóðið bara verulega lágt þegar ég fann það. Skipulagningin var líka þannig hjá áhöfninni að flugstjórinn kom með tilkynningu í miðju intróinu á myndinni, þegar sögumaðurinn er að rifja upp forna tíma. Við þetta stöðvaðist myndin en reyndar þannig að maður missti af smá bút. Þau hefðu getað seinkað myndinni um fimm mínútur og þetta hefði ekkert rekist á. Það var annars kjánalegt að heyra flugstjórann tala um að flogið væri yfir „Álaborg“ þegar hann var að lýsa leiðinni á ensku. Það er mér til efs að enskir noti heiti svipað okkar á borginni.
Flugleiðir eru með bil á milli sæta eins og þeir séu lággjaldaflugfélag. Þetta er skelfilegt fyrir fólk eins og mig sem vogar sér að vera yfir meðallagi hávaxinn. Boðið var upp á mat í vélinni. Ég velti lengi fyrir mér hverslags matur þetta væri. Var þetta kartöfluréttur? Einhvers konar fiskur? Kjúklingur? Eða bara eitthvað sem ekki tengdist nokkru náttúrulegu fyrirbæri? Ég giskaði á kjúkling eftir að hafa tekið bita en það gæti hafa verið rangt hjá mér. Ískalt ógeð. Ég borðaði nokkra bita. Máltíðinni var að einhverju leyti bjargað með Síríus lengju. Hún eyddi allavega óbragðinu úr munninum á mér.
Lendingin var frekar óeftirminnileg. Um leið og við komum inn á Kastrup þá vorum við minnt á helsta galla Dana, reykingarnar. Maður sér reyndar að reykingar eru bannaðar á fleiri stöðum en áður en þeir fara bara ekki eftir því. Þeim er líka alveg sama þó þeir blási reyknum framan í mann. Biðin eftir farangrinum var löng og leiðinleg. Við tókum lestina inn í Kaupmannahöfn eftir að hafa keypt miða frá dónalegum starfsmanni lestanna.
Þegar við komum inn á lestarstöðina byrjuðum við á að losa okkur við farangurinn í læsta skápa. Það gekk hratt og örugglega. Við fórum síðan að leita að einhverju matarkyns og enduðum með að versla okkur smávægilegt í bakarí. Við eyðilögðum biðraðakerfið hjá Dönunum með því að eyða of löngum tíma fyrir framan afgreiðsluborðið að ákveða hvað við ætluðum að kaupa. Ég keypti mér Miranda að drekka. Við fórum út á Ráðhústorg og borðuðum þar. Brauðin voru góð en Mirandað ekki. Um þetta leyti var klukkan að nálgast átta að morgni og við vorum í vanda enda dauðþreytt án nokkurs staðar til að halla höfði fyrr en klukkan sjö að kvöldi.
Við ákváðum fyrst að rölta aðeins að garðinum við Rósenborgarhöll. Við settumst fyrst á óþægilegan bekk og reyndum að slappa af þar. Ég kom þá auga á tvo þægilegri bekki aðeins frá og við ákváðum að leggja okkur aðeins þar. Markmiðið var ekki að sofna en Eygló gerði það. Hún vaknaði hins vegar við lúðrasveitarblástur. Við röltum í áttinni að hávaðnum og sáum í gegnum girðingu að þar virtist vera að útskrifa einhverja hermenn. Við nenntum ekki að fylgjast með því og fórum þess í stað út á grasið og lögðum okkur þar. Það var ekkert óhóflega skrýtið enda lá fólk á ýmsum stöðum í garðinum. Það hafa hins vegar væntanlega færri sofið í rúma tvo tíma eins og við gerðum.
Við vöknuðum líklega um hálfellefu. Við röltum þá aðeins um og enduðum á Manhattan Deep Pan Pizza á Strikinu. Þetta var svona allt sem þú í þig getur látið dæmi fyrir 49 danskar. Vandamálið var að til að byrja með voru bara þrjár pizzutegundir í boði og sú skársta var með maísbaunum. Undir lokin bættist ein skárri við og það bjargaði staðnum frá því að fá eina og hálfa stjörnu í einkunn, hann fær tvær. Þeir græða mest á gosinu sem kostar nærri jafn mikið og matarskammturinn.
Næst fórum við í tónlistarbúð og keyptum þar Queen dvd disk og Valhalla teiknimyndina (Goðheima). Síðan fórum við í Games og Faroes Cigar. Þetta eru yndislegar búðir. Vindlar farós þá sérstaklega. Það er nördabúð par exsellans. Þar er hægt að kaupa búninga, grímur, brynjur auk spila og annars skemmtilegs stöffs. Ég mátaði skikkju en keypti ekki. Ég var löngu búinn að ákveða að kaupa mér Munchkins spil en átti eftir að ákveða hvaða útgáfu. Það leystist snöggt þegar ég sá Cthulhu útgáfuna. Hún var keypt. Vona að fleiri en ég fatta brandarana.
Eftir þetta röltum við aðeins um. Enduðum á Istegade. Þar var mun meira af vændiskonum en ég hef áður séð svona um miðjan dag. Kannski eru þetta túristarnir. Síðan voru dópistarnir að útbúa skammtinn sinn þar án þess að reyna að fela það. Eftir þetta mæltum við okkur mót við Svenna og Hrönn á lestarstöðinni. Við ákváðum að finna okkur eitthvað að borða.
Við enduðum á ítölskum stað sem heitir (Italiano?) á Skindegate, rétt við Jorcks Passage. Staðurinn var mjög fínn. Ég fékk mér lasagne á 99 krónur. Gosið var ekki heldur dýrt. Eygló fékk sér spaghetti bolognese en Svenni og Hrönn voru asnalega eins með hálfmána. Allir voru ánægðir með matinn. Þrjár stjörnur af fjórum mögulegum. Það vann líka indæl íslensk stelpa á staðnum.
Eftir þetta röltum við aðeins um bæinn en stefndum síðan í átt að íbúðinni. Ég var mjög þreyttur. Við komum loks að íbúðinni, biðum þar í dálítinn tíma. Þegar opnað var fyrir okkur notaði ég fyrsta tækifærið til að hoppa upp í sófa og leggja mig. Ég byrjaði að hrjóta áður en ég sofnaði. Ég man eftir Svenna, Hrönn, Eygló og umsjónarmanni íbúðarinnar að spjalla um hroturnar. Almennt hrýt ég sjaldan en óþægilegar stellingar valda hrotum og þarna var ég koddalaus.
Ég vaknaði við Kim Wilde að syngja Keep me hangin on. Þá var Hrönn ein þarna með Frey að horfa á sjónvarp. Eygló og Svenni komu fljótt aftur með farangurinn okkar sem hafði verið á lestarstöðinni í öruggri geymslu. Ég var orðinn svo hress eftir 90 mínútna svefn að ég ákvað að skella mér þeim út í búð. Síðan skrapp ég á netið og skrifaði ferðasögu. Því lauk ég klukkan 22:35 að dönskum tíma föstudaginn 29. júní.
Laugardagurinn 30. júní
… átti að hefjast með vakningu klukkan níu en Eygló ýtti þess í stað við mér klukkan tíu. Við borðuðum morgunverð og fórum niður í bæ. Þar röltum við í nokkrar búðir og rákumst á Ármann. Ég tilkynnti honum að ég myndi koma til hans í tíma í Århus. Svenni og Hrönn voru þá búin að stinga okkur af þannig að við kvöddum Ármann í flýti og þegar við náðum þeim fengum við okkur ís. Síðan fórum við að ná í Steinu mömmu Eyglóar. Í kjölfarið var ákveðið að borða.
Eftir nokkurt rölt enduðum við á að velja Shawarma Grillhouse á Strikinu sem er víst það elsta í Kaupmannahöfn, stofnað 1980. Við settumst á efri hæðinni sem var meira kósí en jarðhæðin. Ég pantaði mér Shawarma dish. Sá var mjög góður. Í heild þá er staðurinn alveg þrjár stjörnur af fimm.
Næst var ákveðið að rölta niður einhverja gönguleið úr bók. Það tók heillangan tíma. Við enduðum síðan á einhverju kaffihúsi þar sem við sátum af okkur fyrstu rigningu ferðarinnar. Í kjölfarið fóru Svenni, Hrönn og Freyr heim á leið en við Eygló og Steina fórum í kanalsiglingu. Það var ágætt.
Þá var klukkan að ferða hálf sjö og við fórum heim. Á leiðinni fórum við í búð. Í búðinni heyrði ég íslenskar raddir en pældi ekkert mikið í því. Ég lenti síðan á ganginum sem Íslendingarnir voru á og tók þá eftir því að þetta var Dagur B. Eggertsson með fjölskyldu sína. Ég heilsaði honum reyndar ekki.
Þegar kom að því að borga var heilmikið vesen á öðrum kassanum. Stúlkan sem var að afgreiða okkur dreif sig yfir og reyndi að hjálpa þar en gat að því er virðist lítið gert, samt hékk hún bara þar. Loks sneri Dagur aftur í búðinni með peninga sem hann hafði tekið úr hraðbanka, væntanlega af því að búðin tók ekki við útlendum kreditkortum. Þá var loks hægt að afgreiða okkur.
Mér þótti reyndar eitt skrýtið þarna. Stúlkan sem var að afgreiða okkur var með svona slæðu sem huldi háls og hár. Hins vegar tók hún sig til og beygði sig eitthvað niður þannig að hún sneri rassinum vel og vandlega að okkur. Rassskoran var þá sýnileg, reyndar heftu sokkabuxur hennar útsýnið örlítið. Ætli hún hafi áttað sig á þessu en verið sama eða telst ekki jafn dónalegt að sýna rassskoruna og hárið? Við komust loks heim og við Eygló fórum þá saman út á pizzustað í nágrenninu. Helsti galli staðarins var að viðskipavinirnir reyktu þar á fullu. Ég fékk góða með pizzu með pepperoni og kebab. Eygló fékk sér líka pizzu og með gosinu kostaði þetta fyrir okkur bæði um 126. Pizza Palads hét staðurinn og ég gef honum alveg þrjár stjörnur. Ekkert spes en vel hægt að borða þar, plús fyrir að vera ódýr.
Við enduðum kvöldið á að spila Munchkin Cthulhu. Það gekk ekki fljótt og örugglega fyrir sig enda enginn sem kunni það almennilega. Ég hafði þó lesið reglurnar tvisvar í gegn. Ég vann eða Svenni, það er ekki alveg víst.
Færsla kláruð 00:20 að dönskum tíma þann 1. júlí.
Ég skrifa þetta 01:21
að dönskum tíma,
mánudaginn 2. júlí.
Um leið og ég skrifaði dagsetninguna mundi ég að amma átti afmæli þennan dag. Sem minnir mig á að Kristín Helga á væntanlega 20 ára afmæli í dag.
En já, ég svaf illa, sofnaði ekki fyrren eftir klukkan fjögur um nóttina en kom mér á fætur í kringum níu. Ég pakkaði draslinu mínu, kvaddi fólkið og við Eygló lögðum af stað út á lestarstöð að hitta Eggert. Við gengum frá draslinu og fundum Eggert.
Næsta mál var að tryggja sér miða til Århus. Það var löng bið eftir afgreiðslu þannig að við röltum út, keyptum okkur smá snarl og fórum síðan aftur þegar við héldum að númerið okkar væri komið upp. Það var komið og farið. Við drógum annað númer og biðum bara á staðnum. Við keyptum okkur miða með föstum sætisnúmerum.
Við röltum síðan af stað í átt að Kristjaníu. Þegar kom að Frelsarakirkjunni þá ákváðum við að gera atlögu að toppinum. Ég komst töluvert lengra en síðast en hugsaði síðan aðeins of mikið um hve hátt ég væri og sneri því við. Eygló og Eggert komust hins vegar alveg upp. Eftir þetta vorum við í vökvaþörf og litum inn í næstu búð. Vöruúrvalið var eitthvað skrýtið en við keyptum ágætis vatn þarna. Á leiðinni út tókum við eftir að þetta var pólsk búð sem skýrði hve undarlegt nafn sódavatnið mitt bar.
Við fórum út í Kristjaníu. Þar sáum við marga hunda. Fólk reykja. Undarleg hús. Ég hellti smá af pólska sódavatninu mínu yfir boli sem voru þarna til sölu en keypti þá engan. Þegar við fórum að rölta til baka sáum við að við myndum ekki hafa tíma til að borða almennilegan mat áður en við Eggert þyrftum að fara í lestina. Við redduðum því með því að versla okkur ágætis samlokur og brauðhorn á lestarstöðinni. Eygló hafði þá skilið við okkur á Strikinu.
Við komust í rétt lest klukkan 13:50. Það var gott að hafa fast sæti því það var sífellt verið að reka fólk í kringum okkur til og frá. Við Eggert spjölluðum dáltið á leiðinni. Í sætinu hinum megin við ganginn var kona með hund. Ég vissi ekki að það mætti. Hann lá bara þarna og reglulega fékk hún aðra farþega til að passa hann.
Á síðasta spottanum fórum við Eggert að spjalla við miðaldra hjón sem sátu við hlið okkar. Konan fór að koma með ýmsar ábendingar um hvað við ættum að gera til að komast á heimavistina okkar. Þegar við komum út rétt fyrir fimm benti hún okkur á Strætóstoppistöð til að ná réttri leið. Við fórum þangað. Tókum vagn en hann stoppaði síðan á næstu stöð sem var greinilega Hlemmur Árósinga. Hann tilkynnti okkur að hann færi af stað aftur eftir 20 mínútur. Við Eggert þurftum að ná á heimavistina fyrir sex og helst mikið fyrr þannig að við gátum ekki beðið. Hann benti okkur þá á annan vagn sem var einn af þeim sem okkur hafði verið bent á að taka.
Við fórum um borð í næsta strætó. Þá hringir Brynhildur þjóðfræðinemi í okkur og sagði að allir væru tilbúnir og það væri bara verið að bíða eftir okkur. Böbb. Ég fer að biðja bílstjórann um að láta okkur vita þegar við kæmum að réttri stoppistöð. Hann benti mér þá á að hann væri að fara í þveröfuga átt. Ég ýtti á stopptakkann og við Eggert hentum okkur út. Við ákváðum að bíða eftir næsta vagni, klukkan þá að nálgast hálf fimm. Ég ákvað að kalla á næsta taxa sem ég sæti ef hann væri á undan strætó. Það er ljóst að við fengum frekar vafasamar upplýsingar frá þessari kellingu. Kannski hatar hún Íslendinga? Það kom þarna og stoppaði fyrir okkur. Við náðum að útskýra fyrir honum hvert við værum að fara. Við komum á réttan stað um kortér fyrir sex og þar tók á móti okkur hópurinn, sumir sem klöppuðu þegar þeir sáu okkur. Michael sem er svona stúdentinn sem á að hjálpa aðkomufólkinu var ekki beint glaður að sjá okkur, hálffúll en þó feginn. Hann fór með okkur að hergbergjunum og lét okkur hafa lykla. Við hentum öllu inn og fórum síðan í hóp samnemenda okkar.
Þá var ákveðið að ganga út í skóla þar sem var móttaka fyrir okkur. Við mættum þar um það bil 18:10. Við fengum þar flögur og pepsi max, og já sumir fengu víst vín. Við fengum líka möppur með kyningarefni og síðan fengum við Eggert okkur lesefnið. Það var þykkur bunki. Allir kynntu sig. Ármann var á staðnum og ég spjallaði aðeins við hann. Það voru nokkrir Íslendingar þarna í viðbót, líka Bretar, Bandaríkjamenn, Norðmaður, Þjóðverji og nokkrir Danir. Ég gleymi líklega einhverjum þjóðernum.
Við Eggert entumst ekki lengi og fórum þá með Evu og Brynhildi aftur heim. Við ætluðum að taka strætó en sáum að vagninn kæmi ekki fyrr en eftir fimmtíu mínútur. Brynhildur hringdi þá strax á taxa og bauð okkur Eggerti með. Hún spjallaði heilmikið við leigubílstjórann sem rataði ekkert lengur af því að hann var nýkominn aftur frá Líbanon þar sem stúlkan sem hann elskar er.
Þegar ég hafði tekið snögga sturtu til að losna við ferðarykið fórum við á pizzastaðinn Libertá sem ég gaf gælunafnið Lipurtá. Þar pantaði ég mér hálfmána með spaghetti bolognese innpökkuðu. Þetta var til heiður matreiðsluvenjum á Rauðhólum. Þetta var hins vegar mjög rangt og ég gat ekki alveg klárað. Ég ætla ekki að gefa staðnum stjörnur út frá þessari undarlegu pizzu. Ég ætla að fara aftur og þegar Eygló kemur þá ætla ég að plata hana til að fá sér svona.
Við Eggert fórum næst á Select og keyptum okkur drykkjarföng og ég fékk mér Kit Kat líka. Við röltum síðan aftur að heimavistinni og reyndum að koma okkur þannig fyrir að við myndum enda með einhverjum í einhverju spjalli. Michael og náungi sem ég held að heiti Niels björguðu þessu fyrir okkur. Við enduðum í setustofu/leikjaherbergi sem er í öðrum væng en við Eggert erum í. Þar safnaðist góður hópur saman og við spjölluðum um allt og ekkert. Meðal umræðuefna var augljóslega heilmargt sem tengdist efni námskeiðins, Terry kom við sögu, munnleg geymd, drama, Nýja testamentið, Jörundur Hundagakonungur og margt fleira. Ótrúlegt fjör. Niels var sífellt að reyna að fá mig til að tala/skilja dönsku en það gekk lítið hjá honum. Við reyndum að halda umræðunni á ensku enda voru þarna Íslendingar (við Eggert, tvær sem ég man ekki nafnið á og síðan Sigga sem var líklega með mér í Gagganum – þó árinu eldri), Danir (Niels og Michael), Þjóðverji (Matthias) og Breti (Gordon fornleifafræðingur).
Um klukkan eitt ákváðum við þó að koma okkur upp í rúm. Höfðum þá spjallað í um þrjá tíma.
Herbergið mitt er ágætt. Baðherbergi með sturtu og klósetti er innifalið. Rúmið virðist ágætt og allt annað líka. Núna ætla ég að fara að sofa, á að vakna klukkan 7:30 á morgun og mæta í morgunmat um átta. Góða nótt.
Mánudagur 2. júlí 2007
Cellegium 3,
Sansestormene
í Århus
Ég vaknaði rétt um átta. Fékk mér léttan morgunverð og rölti með hinum út í skóla. Röltið tekur um hálftíma held ég. Dagurinn byrjaði á fyrirlestri frá Daniel sem er sænskur kennari. Stofan var svo loftlaus og ég svo þreyttur að ég var sífellt að loka augunum og næstum því búinn að dotta. Hann tók eftir því en tók því ekki illa. Í hádeginu fórum við á mötuneyti í háskólanum. Ég borðaði einhvern allt í lagi mat. Við Eggert spjölluðum heilmikið við Ármann, Magnus Svía og einhvern Englending um konungafjölskyldur og margt fleira.
Eftir hádegi var fyrirlestur frá Pernille. Ég var með svipaðri meðvitun og fyrir hádegi. Eftirminnilegast var það hve Matthias rökræddi mikið.
Við röltum niður í bæ eftir skóla og enduðum og bar í miðbænum. Ég reyndar laumaðist aðeins út og skoðaði spilabúð í nágrenninu. Þegar ég kom aftur keypti ég mér rándýrt kók og hlustaði á eina stúlku segja að það væri bara aumingjaskapur að þola ekki reykingar. Við Eggert stungum þá af, ráfuðum um bæinn en snerum síðan aftur til að fá leiðbeiningar út á næstu strætóstoppistöð. Heimferðin í strætó gekk vel nema að við stoppuðum einu stoppi of snemma.
Næst tók við innkaupaleiðangur í Netto í Veri Center. Þar keyptum við Frikadellur, kartöflur, brúnsósu og allt annað sem þurfti til að elda þetta. Ég sá síðan að mestu um matseldina, Eggert sá reyndar um að skammta sykur í kartöflustöppuna. Þetta heppnaðist bara ljómandi vel. Næst á dagskrá er að hittast í sameiginlega rýminu núna klukkan átta en ég þarf einmitt að koma mér af stað enda er þetta skrifað klukkan 19:58 að dönskum tíma.
Þriðji júlí 2007
klukkan 23:15
að dönskum tíma
Eftir að ég skrifaði síðustu færslu þá enduðum við nokkrir Íslendingar inn á sameiginlega rýminu. Gordon slóst í hópinn. Við sungum og spiluðum fyrir hann íslensk lög. Fleiri bættust í hópinn og við spjölluðum reyndar ekki nema til svona miðnættis.
Í morgun gengum við í skólann. Ég komst líka í ákaflega lélegt netsamband þar. Agalega gott að komast í póstinn. Í hádeginu spjölluðum við Eggert við Ármann um stúdentapólitík. Í hléi tók ég tvær stelpur í kennslustund varðandi íslenska „föður“nafna kerfið og einnig um ættfræði. Eftir á sýndi ég litháísku stelpunni líka Íslendingabók og sýndi tengsl mín við Snorra Sturluson, Egil Skallagrímsson og fleiri.
Við tókum strætó heim og fórum í búðina. Þar hittum við Reynhildi og Áslaugu. Við ákváðum að slá saman og elda kjúklingaréttinn mexíkanska. Það þýddi að ég eldaði að mestu. Ég veit ekki hvað kom til en maturinn var fullmikill. Eiginlega tvöfalt of mikill. Við buðum semsagt öllum afgang. Ég held að það hafi um tíu manns borðað eitthvað af kjúklingnum. Sjálfum fannst mér hann illa heppnaður, of lítil sósa, en flestir hrósuðu honum. Niels gerðist svo góður að klára restina.
Við Reynhildur vorum löngu búin að ákveða að spila saman Munchkin Cthulhu og plötuðum Michael að vera með. Þetta spiluðum við til svona ellefu. Þá var kominn tími til að hætta vegna þess að Ármann var með hótanir í dag um að spyrja bara einhverja um efni dagsins. Eyrbyggja og Bárðarsaga eru næstar á dagskrá hjá mér.
Ég held ég hafi annars aldrei tekið jafn fáar myndir í útlöndum. Ég tók enga í dag og held ég bara eina í gær. Ég þarf að verða duglegri. Kannski auðveldara núna þegar maður þekkir eiginlega alla.
Það er mjög skrýtið að eyða tíma í útlöndum þar sem maður þarf að skipuleggja svona hversdagslega hluti eins og eldamennsku upp á eigin spítur. En það var samt ákaflega gaman að gefa fólki að borða í dag.
Á morgun reyni ég kannski að kaupa netsnúru til að komast í netsamband hérna í herberginu mínu. Þá þarf ég ekki að lesa blogg í skólanum 😉 Árósabúinn Óli
Århus
5. júlí 2007
klukkan 0:01
Við röltum í skólann í morgun og hlustuðum síðan á Ármann tala um tröll. Það var ákaflega gaman. Eftir það fór ég niður í bæ og rölti í búðir. Ég keypti netsnúru til að geta verið nettengdur í herberginu mínu. Síðan fjárfesti ég í tveimur bolum. Annar er bara fyndinn en hinn er meira til minningar um dvölina. Ég rölti dálítið um miðbæinn. Árósaá er frekar skítug. Það er pirrandi hvernig búðir hérna eru opnar. Eða lokaðar öllu heldur. Annað hvort klukkan 17:30 eða 18:00, fæstar opnar lengur en það.
Við borðuðum saman á veitingastaðnum Valhalla. Hann var ágætur en ekkert spes, svona tvær og hálf stjarna. Ég sá um að safna peningum og borga. Ég hefði nú vel getað hlaupist á brott með 4200 danskar en ég ákvað frekar að hirða bara þessa tuttugu og einu krónu sem af gengu. Við fórum næst á bar en ég var ekki í miklu stuði þannig að við Eggert og Reynhildur tókum saman strætó heim.
Ég fór síðan á netið og hringdi í Eygló. Næst á dagskrá er sturta og svefn.
Góða nótt.
5. júlí
klukkan 22:51
Dagurinn var líkur fyrri dögum. Vöknuðum, gengum í skólann en Ármann talaði reyndar ekki jafn mikið um tröll í dag.
Eftir skóla fórum við í búð og keyptum efni í Lasagne. Ég lagði mig í smá tíma og eldaði síðan. Með okkur Eggert í þessu voru Sigga og Reynhildur. Þetta heppnaðist ágætlega og það er smá afgangur eftir í eldhúsinu.
Eftir spjall þá fórum við að spila Munchkin Cthulhu sem gekk bara vel.
Var ég búinn að minnast á að Sigga var víst með mér í Gagganum? Í bekk með Villa Stebba? Allavega skemmtileg tilviljun. Ég man ekkert eftir henni beinlínis en ég vissi samt um leið og ég sá hana að hún hlyti að vera Íslendingur.
Á morgun er enginn beinn skóli. Fyrir hádegi erum við að undirbúa okkur fyrir laugardagstímann. Sú sem átti að kenna í fyrramálið er veik. Hún átti reyndar að kenna líka í dag en Ármann leysti hana af. Seinnipartinn eru síðan gestafyrirlestrar.
Eygló kemur síðan með lest seinnipartinn og verður yfir helgina.
Nú fer ég að lesa um hin æsilegu ævintýr Ólafs Tryggvasonar.
8. júlí
klukkan 2:14 að dönskum tíma
í Árósum
Ég er ekkert búinn að skrifa um föstudaginn. Fyrsti tíminn féll niður þar sem Trine var veik. Í staðinn spjallaði fólk um Ólaf Tryggvason. Ég nennti ekki óhóflegu spjalli um það efni og lagði mig frekar. Eftir hádegi voru fyrirlestrar. Sá fyrri frá sænskri konu sem ég man ekki hvað heitir um genre. Seinni var frá Úlfari Bragasyni um Sturlungu. Báðir ágætir. Reyndar var ég farinn að blóta Úlfari fyrir að vera svona lengi því ég vildi komast fyrr út til að ná í Eygló.
Rétt fyrir fjögur fór ég út. Ég reyndi að rata rétta leið en var ekki með neitt kort. Ég er rétt byrjaður að fá tilfinningu fyrir Árósum núna, hugarkortið mitt er að teiknast. En á föstudaginn bara villtist ég um. Síðan þegar ég var kominn á Strikið þeirra þá var einhver skrúðganga þar og ég endaði í staðinn á einhverri götu sem ég hélt að væri samsíða en var það barasta ekki.
Að lokum endaði ég upp á lestarstöð rúmlega 20 mínútum á eftir Eygló. Þegar ég var að leita að Eygló fann ég verslunarmiðstöð. Hún er ekki vel falin, bara sambyggð lestarstöðinni. Af tilviljun þá hafði ég fyrr um daginn rekist á auglýsingu um stafrænar myndavélar í dagblaði og sá þar að búðin var einmitt staðsett í þessari verslunarmiðstöð. Bruunsgalleri eða eitthvað álíka. Þegar ég hafði fundið Eygló þá fór ég með henni þarna inn, fann búðina og endaði með að kaupa nýja Fuji myndavél. Hún heitir Finepix A820 og kostaði rétt um 1000 danskar krónur. Hún virðist fín, eini gallinn er að hún er ekki alveg frábær við öll birtuskilyrði en það gæti verið bara eitthvað sem maður lærir á.
Eftir þetta sýndi ég Eygló miðborgina og eftir að hafa leitað að spennandi veitingahúsi þá gáfumst við upp fyrir svengdinni og fórum á Pizza Hut. Ágætur staður en danska pepperoniið er alltaf frekar slakt. Tvær og hálf stjarna myndi ég segja, plús fyrir liðlegt þjónustufólk en slíku er ég ekki vanur af þessari keðju.
Við komum okkur næst heim. Við settum þá í þvottavél þrátt fyrir tilraunir Eyglóar til að týna þvottavélakortinu. Við röltum líka út á Select. Ég sýndi Eygló síðan hvar hún þyrfti að taka strætó næsta morgun til að hitta okkur Eggert eftir skóla. Á einhverjum tímapunkti spiluðum við líka.
Ég vaknaði eins og venjulega í morgun. Eldaði hafragraut og gekk í skólann. Ágætur tími. Ég hélt heiðri munnlegrar hefðar á lofti. Matthias hélt hins vegar heiðri allra gamalla kenninga á lofti.
Eftir skóla hittum við Eggert Eygló og fórum með strætó í Den Gamle By. Þetta er svona Árbæjarsafn. Flott en voðalega lítið spennandi gert þarna. Eygló sagðist vera 17 ára til að komast frítt inn en við Eggert fengum stúdentaafslátt. Við fengum okkur pylsuhorn sem var ekkert spes afgreitt af stelpum sem telja að eðlilegt sé að gos sé goslaust. Við lentum líka í kaupmönnum þarna sem voru á sama stigi og þar sem seldu Íslendingum maðkað mjöl.
Ævintýri dagsins var þegar við prufuðum að ferja okkur yfir smá skurð sem er þarna. Báturinn var blautur þannig að við gátum ekki sest, við bara stóðum. Ég togaði í kaðal til að koma okkur áfram. Á miðri bakleiðinni ákvað Eggert skyndilega að pósa á mynd eins og hann hefði verið að toga líka. Til þess að komast kaðlinum ákvað hann að stíga yfir á minn helming af bátnum. Eggert virtist hissa þetta skyldi verða til þess að báturinn hallaði mjög snögg mikið á þá hlið. Ég hrópaði á Eggert að koma sér aftur yfir sem hann gerði snöggt. Við vorum svo heppin að ekkert okkar datt í veltingnum. Ég útskýrði síðan hugtakið jafnvægi fyrir Eggert.
Stuttu eftir þetta fórum við með strætó niður í bæ. Svindluðum okkur eins og við höfum þegar gert nokkrum sinnum. Hér er farið inn í strætó aftast og þar eru vélar til að taka við greiðslu. Enginn fylgist venjulega með. Hins vegar kemur það víst fyrir að eftirlitsmenn stökkva um borð og tékka á öllum. Árósarbúar eru mikið fyrir að svindla því það borgar sig þegar maður notar vagninn oft. Sektin er í raun lægri en fargjöldin hefðu verið.
Við röltum um bæinn. Ég keypti Jeg Claudius og upprunalega Munchkin. Einnig fengum við okkur ristaðar möndlur.
Við tókum mjög troðinn strætó heim. Fórum í búðir þar sem við vorum ofrukkuð. Við keyptum líka flegna snigla. Á leiðinni heim náði Eygló að reka pokann sinn í tröppur þannig að ein Breezer flaskan hennar brotnaði. Það varð til þess að sokkarnir sem ég keypti til þess að þurfa ekki að þvo sokka aftur hér urðu áfengisblautir.
Það var grillveisla sem átti að byrja klukkan fimm en gerði það ekki. Hugsanlega var klukkan um sex þegar við fórum að borða. Maturinn var ekkert spes. Þegar flestir höfðu klárað matinn gerði stutta en öfluga rigningu. Við hlupum með allt draslið inn og héldum flest áfram þar. Fólk komst í stuð við að fara eftir tillögu minni um að syngja sem mest þarna. Við sungum Vem kan segla förutan vind á íslensku, ensku, þýsku, sænsku, frönsku og hollensku. Þrjú fyrstu virkuðu mjög illa en þrjú síðustu vel. Sérstaklega kannski það hollenska sem enginn skyldi.
Við enduðum með að taka til og fara á sameiginlega rýmið á heimavistinni. Þar var sungið og spjallað. Matthias tók þá og tilkynnti að hann þyrfti þrjá karlmenn til að fá með sér í dans sem hann ætlaði að sýna. Ég stakk upp á Owen og Magnus og þá kallaði fólk á að ég yrði sá þriðji. Ég útskýrði að ég væri taklaus en það breytti engu. Dansinn var áhugaverður. Fyrst erum við að slá á sjálfa okkur og hendur þess sem stendur á móti mann. Síðan hleypur maður í hring og reynir að sparka í rassinn á þeim sem eru á undan manni. Að lokum er farið ógnarhratt í hringi þannig að tveir lyfta fótunum og svífa. Undir þessu syngjum við undarlegt þýskt lag. Þetta er víst frá Suður Bæverjalandi.
Það gekk ágætlega að dansa fyrir utan að ég ruglaðist alltaf á sama stað í klappinu. Síðan hrundi ég að lokum í flugkaflanum af því að ég var orðinn svo ringlaður. Þetta var snilld og náðist á videó.
Ég spjallaði dáltið við Englendingana. Helenarnar, önnur kemur á Árnastofnun í haust, eru úr sveit og þar eru dansaðir Morris dansar og þar eru líka ýmsir undarlegir siðir. Louis hafði áður lýst yfir því að hann hefði enga þolinmæði fyrir slíkt þannig að þessar sögur voru mjög skemmtilegar. Markmið í lífinu er að sjá Morris dansara.
Dáltið af fólki vildi fara niðrí bæ en ég alls ekki. Við urðum þónokkur eftir, spjölluðum, sungum og hlustuðum á tónlist en að lokum var ég kominn með reykingahausverk og fór inn í herbergi.
Fjör.
Árósir
sunnudagskvöldið 8. júlí 2007
klukkan 22:31
Ég hef nú verið viku hérna. Það er lengst samfleytti tíminn sem ég hef eytt á nokkrum einum stað utan Íslands.
Við vöknuðum í morgun við sólina sem skein inn um gluggann. Vonir okkar um sólríkan og heitan dag voru þó kæfðar í fæðingu af vindi og skýjum. Við Eygló fórum með strætó niður á lestarstöð um hálf eitt. Strætóinn kom á öðrum tíma en vefkerfi strætisvagnafélagsins hafði gefið til kynna. Á lestarstöðinni settum við farangur Eyglóar í geymsluskáp og fengum okkur síðan að borða þarna. Við höfðum ætlað að fá okkur eitthvað almennilegt en sættumst á hamborgara og franskar. Ekkert sérstaklega gott. Ég myndi segja tvær stjörnur. Hamborgarinn var full MacDonaldslegur og franskarnar full saltar. Síðan lenti ég í því að troða upp í mig og tyggja einhverju sem líktist íspinnastöng. Það kom í ljós að þetta var einhvers konar gaffall til að borða franskar með.
Við stukkum upp í sama vagn og hinir sem voru að fara í Moesgård safnið. Ég bauð öllum franskar en enginn þáði fyrren að við vorum komin alla leið. Við fengum leiðsögn um safnið af fornleifafræðingi sem ég náði ekki nafninu á. Áhugaverðast var óneitanlega að sjá Grábólumanninn. Þegar maður sér svona vel varðveittann gamlan líkama þá hlýtur maður að setja sjálfan sig í samhengi við einstaklinginn. Gordon spurði hvort það væri siðferðislega rétt að sýna forfeður okkar svona. Hann benti á að þetta væri ekki lengur gert með inúíta og indíana. Ég er ekki viss hvað er rétt og rangt en ég sagði að Grábólumanninum sjálfum hefði væntanlega ekki þótt þetta ógnvænleg framtíðarsýn þegar það var verið að brjóta beinin hans og höfuð. Rúnasteinarnir voru flottir en Danirnir hafa bara danskar þýðingar á áletrunum en skrifa ekki upp það upprunalega. Því ætti að breyta. Hitt safnið á svæðinu var ekki flott, of mikið af drasli bara hrúgað saman.
Eftir að hafa snarlað fórum við Eygló ásamt nokkrum öðrum að bíða eftir strætó. Það tók svona 40-50 mínútur umfram það sem skiltið sagði. Það voru víst seglskip að sigla frá höfninni og umferðin var mjög slæm. Vagninn sem kom gat ekki heldur farið með okkur alla leið, setti bara upp „ikke på rute“ og setti okkur út á stöð þar sem við gátum náð öðrum vagni. Við náðum að komast niður í bæ og við Eygló hlupum á lestarstöðina, keyptum miða handa henni og fórum í lestina. Ég tróð útroðinni tösku hennar upp í farangurshilluna og kom sér úr lestinni. Þá tók við þriðja strætóbið dagsins. Sú tók um klukkutíma. Vagninn var ekki ennþá kominn á rétta leið og fattaði ekki hvaða aðra vagna ég gæti tekið.
Þegar heim var komið fór ég með Eggert og Siggu að kaupa pizzur. Ég fékk mér með kebab, pylsum, beikoni og sveppum. Við borðuðum að lokum bara inn í herbergi þar sem of margir voru að læra í eldhúsinu. Þegar ég var loks að fara að læra þá kom Marie í heimsókn. Hún hafði talað um að koma á sunnudagskvöldi en við höfðum ekki náð að tala saman aftur um það. Ég gaf henni harðfiskinn og við Eggert spjölluðum við hana í tvo tíma um hitt og þetta. Ég borðaði síðan flegna snigilinn minn og skrifaði þessa færslu.
Næst á dagskrá er væntanlega Hrólfs saga kraka eða Völsungasaga. Jey.
Þriðjudagur 10. júlí
klukkan 0:59 í Árósum
Í dag lærðum við um Fornaldarsögur og Hrólfs saga Kraka. Það var ágætt. Við fréttum líka að annar höfundur Goðheima bókanna myndi líta við á morgun og sýna okkur teiknimyndina Valhöll. Ef það gengur eftir þá verð ég glaður. Ég ætlaði í dag að kaupa mér einhverja af þessum bókum á dönsku í bókabúðinni hér í Veri Center en ekkert fannst. Bögg. Við þurftum reyndar að vaða stóran poll í undirgöngunum til að komast yfir að Veri. Sigga sagðist hafa fundið góða leið í gegnum hann án þess að blotna of mikið en það var bara plat. Ég komst nokkuð vel í gegnum það samt.
Rétt um sex þá komu Sóley, Hafdís og Mummi í heimsókn. Ég sýndi þeim herbergið mitt og aðstöðuna en síðan fórum við að borða niðrí bæ. Ég náði ekki nafni staðarins en hann fær ekki nema svona tvær stjörnur í mínum bókum. Maturinn var ekki góður. Við röltum síðan aðeins um miðbæinn og fengum okkur ís. Mér finnst pistasíuís greinilega vondur. Þau skutluðum mér síðan aftur heim. Það er svoltið skrýtið hvað ég er að fara tíðar heimsóknir hérna. Eygló nýfarin og þá fæ ég bara fjölskylduna í staðinn.
Eftir þetta fórum við Eggert niður að strönd með Helen, Helen, Michael og Mariu. Við áttum indæla stund þar sem við köstuðum steinum í sjóinn. Við Eggert fórum reyndar aðeins á undan hinum heim. Þar athuguðum við hvort að einhver væri í sameiginlega rýminu en þar var bara Matthias að lesa. Þegar við Eggert höfðum ákveðið að fara snemma að sofa rákumst við á Mariu og Owen sem voru að fara að lesa og fá sér heitt kakó. Ég sagðist vera til í spjall en ekki nenna að lesa og þannig eyðilagði ég lærdómskvöldið fyrir þeim. Helenarnar bættust síðan í hópinn ásamt Michael.
Við sátum heillengi og spjölluðum um allt og ekkert. Sjálfsímynd ungra Þjóðverja og Breta. Íslensk ættarnöfn. Undarlegar íþróttir í Bretlandi. Við Eggert sýndum síðan hina göfugu þjóðaríþrótt okkar Íslendinga, glímu.
Stuttur skóladagur á morgun.
Árósir 11. júlí 2007
klukkan 0:28
Ég var að átta mig á því að ég er núna búinn að ná því að vera lengur utan Íslands en ég nokkurn tímann verið áður. Ég stefni á að slá þetta met aftur í haust.
Ég gerði í dag tilraun til að borga leiguna með færeyskum þúsund króna seðli. Því var hafnað. Ég er sár fyrir hönd Færeyjinga.
Vonbrigði dagsins voru að Henning kom ekki. Í staðinn fórum við Eggert niður í bæ og kíktum fyrst í búð sem Marie hafði mælt með, Goblin’s Gate. Hún var bara nokkuð góð, spil, roleplay, leve rollespel og margt fleira. Ég keypti Munchkin blender og eitthvað Cheez spil.
Næst fengum við okkur að borða. Fyrir valinu varð Mackie’s Pizza sem er rétt hjá Dómkirkjunni. Ágætur staður svosem. Álegginu var hlaðið á pizzurnar en maður fékk eiginlega nóg af því þegar á leið, í hæsta lagi tvær og hálf stjarna. Við kíktum næst í banka sem var þarna, ég skipti færeyska seðlinu í danskan án vandamáls og síðan fórum við í kjallaranum. Þar var víkingasafn sem Eggert sagði að væri algjörlega laust við nokkurn kost. Ég myndi ekki ganga svo langt en það var ekki spennandi.
Við ákváðum að koma okkur bara heim að lesa, stukkum í strætó sem við rétt náðum. Þegar við nálguðumst stoppistöðina þá vildi Eggert endilega fara út einni fyrr en ég. Ég hélt að Eggert þekkti einhverja betri leið heim en það kom í ljós að honum misminnti bara og við þurftum að ganga töluvert lengra en við hefðum þurft að gera.
Við lásum síðan úti í smá tíma. Riddarasögur innihalda fullmikið af gagnslausum upptalningum á því hve frábært eða ömurlegt fólkið er. Merkilega lítið aksjón. Við elduðum hakk og spaghetti. Eggert vildi setja beikon í og ég ákvað að prufa. Slæmt hugmynd.
Við skruppum út í búð og ég keypti mér rakvélablöð og naglaklippur eftir að hafa ráfað dáltið milli Kvickly og Netto. Í Kvickly heyrði ég íslensku og bjóst við að sjá einhverja félaga sem eru í námskeiðinu en nei, þarna voru bara einhverjir túristar. Ég forðaði mér.
Í kvöld sátum við lengst af inni í eldhúsi. Við fylgdumst með Helenunum baka. Það var merkilega fyndið. Það endaði líka nokkuð flott hjá þeim, víkingaskip fyrir Mariu hina norsku sem á afmæli á morgun, eða í dag.
Niels og Betsie eru búin að draga sig saman. Við eyddum töluverðum tíma í að stríða honum á ýmsu í kvöld. Weird og freaky.
Miðvikudagur 11. júlí 2007
klukkan 23:42
Í gær gleymdi ég að minnast á örðugleika í Norðurlandasamstarfi. Eftir að ég hafði sungið það sem ég kann af sænska þjóðsöngnum nokkrum sinnum fyrir hann þá náði Niels í sænskan pappírsfána og kveikti í honum. Ég íhugaði að planta honum í eldhúsinu sem Svíarnir (sem eru í öðrum sumarkúrs í háskólanum og gista líka hérna) nota. Ég ákvað að sleppa því.
Dagurinn var svipaður og venjulega. Matthias hinn þýski fór að tala um þjóðarkarakter og upp úr því spruttu miklar umræður. Það gekk ágætlega. Rétt áður en kennarinn, hann Daniel, ætlaði að koma sér að næsta efni spurði hann hvort að einhver vildi bæta nokkru við. Það varð algjör þögn og ég er viss um að allir voru að hugsa það sama og ég, Matthias mun ekki geta stillt sig um að bæta einhverju við. Og þegar hann gerði það sprungu allir úr hlátri. Komst annars að því að hann er 37 ára og á 6 ára dóttur. Hann er annars á mjög óræðum aldri.
Við Eggert ákváðum að kaupa bara tilbúið lasagne í kvöldmatinn. Höfðum hvítlausbrauð með. Ég endaði kvöldið á afmælisveislu/spjalli þar sem Maria, Helen, Helen, Owen, Gordon, Louis og Michael voru líka. Maria var með hryllingssögur um reglurnar sem giltu í skólanum sem hún gekk í í Bandaríkjunum. Bretarnir komu líka með ýmsar skólasögur. Skemmtilegt. Ég bjó til Facebook síðu í gær til að halda sambandi við þetta fólk. Helen hin dökkhærða verður reyndar á Árnastofnun næsta vetur og Niels verður í skólanum.
Jæja, sturta og hugsanlega Þorlákssaga helga. Mér skilst að hann lækni einhverja sauði þar.
Föstudagur 13. júlí 2007
klukkan 0:24
Í gær gleymdi ég að segja frá lýsingu minni á því hvernig sá sem stytti Tristrams sögu tók ákvarðanir um hvað ætti að vera inni. Blablalblalbla. „og honum leið illa“.
Stuttur dagur í dag. Við byrjuðum á því að skoða Jyllands Posten. Þar var grein þar sem fjallað var um kúrsinn og tekið viðtal við nokkra nemendur. Ég sést vel á myndinni en Eggert og Sigga sjást aðeins. Eftir tíma var svona auglýsingastund hjá Trine og Pernille um námið hérna og annað sem er á seyði. Við fórum með strætó heim á leið. Stoppuðum í Veri Center og versluðum þar hamborgara. Einnig fékk ég mér bakkelsi til að borða í hádeginu.
Í stað þess að borða fljótt og byrja að lesa þá spjölluðum við heilmikið. Svo fór ég og las Þorlákssögu, lagði mig, kláraði Þorlákssögu. Við elduðum síðan alveg ákaflega vonda hamborgara en ágæta kartöflubáta. Ég drakk líka nokkra bolla af te í kvöld, Englendingarnir hafa slæm áhrif á mig. Við spjölluðum síðan heilmikið í stað þess að læra.
Á morgun læri ég mikið.
Vonandi.
p.s.
Í dag var hagfræðingurinn Owen að vandræðast með eggið sitt og þegar Helen hin rauðhærða spurði hann hvort að hann þyrfti hjálp við þetta þá sagði hann að hann þyrfti enga þar sem hann hefði gráðu. Ég spurði þá sakleysislega „Yeah, in Eggonomics right?“ Það hlógu allir að þessum ákaflega slaka brandara.
Laugardagur 14. júlí
klukkan 0:08
Dagurinn fór að mestu í að lesa og spjalla. Dagurinn endaði á því að horfa á og hæðast að Return of the King. Það er ágæt skemmtun þegar maður er umkringdur fólki sem þekkir mikið af þeim tilvísunum sem koma þar fram. Metallica var greinilega að spila í nágrenninu, ég heyrði í þeim.
Próf í fyrramálið.
Laugardagur 14. júlí 2007
klukkan 18:03
Ég náði prófinu. Ég fékk reyndar ömurlegt efni, ást í þýddum riddarasögum í samanburði við ást í heimatilbúnum riddarasögum. Ég var ekki einu sinni viss um að ná. Ég fór með tölvuna út í skóla, gekk í þessa veðri sem þýddi að ég var bara blautur á bakinu eftir röltið. Það var ekki þægilegt.
Þegar ég kom til baka skrapp ég í Kvickly og keypti mér smá bakkelsi. Ég á eftir að sakna þess. Fór í sturtu og ákvað að vera nú einu sinni virðulega klæddur í skyrtu. Það var ekki góð hugmynd því niðrí bæ sullaði ég lakkrísís á skyrtuna. Ég rölti fyrst aðeins einn í bænum, keypti enga mjög spennandi hluti. Síðan rölti ég um með Louis sem sagði mér að það væri víst lítið um lestarmiða til Kaupmannahafnar í fyrramálið. Ég fór og keypti miða. Ekkert laust nema á fyrsta farrými og það kostaði 50 krónur danskar aukalega á hvern miða. Vonandi verður það notalegra en almenna farrýmið.
Núna er ég að fara undirbúa mig fyrir kvöldið og kvöldmatinn. Bláa skyrtan er allavega ennþá hrein.
Sunnudagur 15. júlí 2007
klukkan 3:31
Kvöldið var gott. Fínn matur á veitingahúsinu Olive. Fær alveg þrjár stjörnur. Mikið um ræður, gjafir og klapp. Eftir á fórum við á einhvern bar þar sem við gátum setið úti, spjallað og haft það notalegt. Ég kyssti Owen vegna þess að ég hélt að hann yrði fyrri til að víkja undan. Benjamin kom út úr skelinni sinni. Í nærri tvær vikur hefur hann læðst meðfram veggjum þannig að maður tók varla eftir honum. Í kvöld var hann bara nokkuð spjallgjarn.
Ég reyndi að kveðja alla, suma endanlega en aðra hittir maður á Íslandi í framtíðinni. Helen hin svarta kemur strax í ágúst og Niels á svipuðum tíma. Maria ætlar að reyna að koma eftir áramót og Helen hin rauða mun á sama tíma væntanlega heimsækja nöfnu sína.
Það er verulega undarlegt að hafa eytt öllum þessum tíma með fólki og nú fari hver í sína átt. Ég er mjög ánægður með þessa ferð. Aðal ástæðan var að hitta fólk sem er í svipuðum pælingum og maður sjálfur. Ég skráði mig sem fyrr segir á Facebook með það að markmiði að halda sambandi við þau.
Ég fór aldrei í sumarbúðir þegar ég var lítill, þetta kemur bara í staðinn.
Á leið í bólið, eða að pakka. Rétt áðan var voða glaður, núna er ég svolítið dapur. Ekki bara að vera fara heldur líka af því að mig langar heim.
Sunnudagur 15. júlí 2007
klukkan 17:47 á Saga Hótel í Kaupmannahöfn
Við vöknuðum eldsnemma í morgun. Það var fjárri erfitt að pakka. Allt er troðið. Ég gekk síðan frá öllu í herberginu mínu. Það passaði akkúrat eiginlega að síðasti skammturinn af Solgryninu dugði í síðasta hafragrautsskammtinn.
Við röltum út á strætóstoppistöð og tókum vagn niður að lestarstöðinni. Þar keyptum við okkur smáræði að borða í lestinni. Það var smá vesen með að finna réttan vagn, til að byrja með var enginn vagn merktur með okkar númeri. En við komust í lestina og fengum okkar góðu sæti. Það er ljúft líf á fyrsta farými. Við fengum ekki bara ókeypis kaffi, eða reyndar fengum við ekki ókeypis kaffi enda drekkum við ekkert slíkt, heldur líka brauð með smjöri og osti. Við gátum líka fengið ókeypis vatnsflöskur. Það er töluvert rýmra um mann þarna. Við sáum líka þegar fólki var fleygt út fyrir að laumast á þetta svæði. Reyndar var þessi lestarþjónn töluvert kurteisari en sá sem fleygði okkur Eygló af fyrsta farrými hér um árið.
Í Vejle sáum við gamla gufulest. Það hefur örugglega verið lestin sem Helenarnar og Louis ætluðu að taka þar. Við enduðum í Kaupmannahöfn á cirka réttum tíma. Við drifum okkur beint á Saga Hotel og tjékkuðum okkur inn. Við Eggert erum saman í herbergi. Það er aðeins stærra en káetan sem við deildum í Gustav av Klint. Glugginn er líka stærri en kýraugað þar. Og augljóslega erum við bara tveir hérna en vorum fjögur í bátnum. En það vantar sárlega lyftu hérna.
Við fórum síðan út og enduðum á Astor Pizza við Hovedbane þar sem við borðuðum hvað við gátum í okkur látið. Ágætt en ekkert spes. Tvær og hálf stjarna.
Þjóðminjasafnið var aðalatriðið í dag. Við eyddum um tveimur tímum þar. Ekkert mikið um það að segja en Eggert á örugglega eftir að sjá um gagnrýnina.
Núna erum við á Hótel Saga að slappa af áður en við förum aftur út að borða. Eggert vildi endilega horfa á One Tree Hill en ég fann síðan My Name is Earl. Þeir eru á leið til Mexíkó.
Mánudagur 16. júlí 2007
klukkan 8:48
Eggert er í sturtu en er kominn aftur.
Mánudagur 16. júlí
klukkan 18:53 Kastrup
Þeir vilja að ég borgi fyrir þráðlausa netið. Ég vill það ekki og verð því ótengdur.
Eftir að ég skrifaði færslu gærkvöldsins þá fórum við Eggert út á Shawarma Grillhouse. Ég keypti mér Shawarma dish sem var jömmí. Á leiðinni heim rákumst við á Brynhildi, Evu og Röggu. Spjölluðum stutt við þær. Á leiðinni sáum við að vaxmyndasafnið var opið. Við fórum þangað. Margt skemmtilegt þarna en verðið er of hátt.
Á leiðinni heim keyptum við okkar svona ísblandað dóterí, ég með kaffibragði. Ég var mjög hrifinn og fékk mér svoleiðis aftur í dag. En við enduðum á hótelinu. Kíktum á netið sem hægt er að komast á ókeypis í andyrinu. Ég fór í sturtu og ég var ekki glaður með aðstöðuna. Allt var á floti. Auðvelt hefði verið að redda þessu með sköfu en engin slík var á svæðinu. Við sofnuðum eitthvað um ellefu.
Ég vaknaði um tvöleytið alveg ofboðslega þyrstur. Ég vissi að kranavatnið var ekki nógu kalt þannig að ég fór niður í afgreiðslu til að kaupa vatn sem var síðan ekki til. Í staðinn fyrir að ganga Istegade í leit að vatni þá keypti ég kók í staðinn. Það dugði og ég sofnaði meiraðsegja fljótt eftir á. Umferðardynurinn fyrir utan opna gluggann dugði ekki til að vekja okkur þreyttu mennina.
Ég vaknaði við vekjaraklukkuna mín um hálfníu. Ætlaði að skrifa ferðadagbók en Eggert kom svo fljótt úr sturtu að ég sleppti því. Ég tróð öllu í töskuna og náði þeim markverða árangri að vera með allt í bara tveimur töskum. Ég fór aftur niður í andyri til að kíkja á netið og þá mætir mér hún Áslaug. Hún var líka á Saga Hótel. Við fórum síðan upp í morgunmatinn. Hann var fínn, nema osturinn sem er augljóslega jafn viðbjóðslega formunalega ógeðslega lyktandi bragaðandi rusl og þegar ég var þarna fyrir fimm árum. Ég borðaði hann semsagt ekki. Bakkelsið var gott.
Við fórum í dýragarðinn, röltum þangað meiraðsegja. Margt skemmtilegt að sjá þar. Hápunkturinn var þegar strútur beit mig. Ég var að skoða strútana og þeir gogguðu í plexiglerið sem aðkildu okkur. Grimm kvikyndi. Ég lagði síðan hendina á grindverkið sem ég hélt að væri þétt og þá finn ég allt í einu að einn bítur í fingurna. Ég veit ekki af hverju hann beit ekki fastar. Ég slapp allavega óslasaður úr þessu.
Við tókum strætó niðrí bæ og fórum á Italiano aftur. Þessi staður er bara ákaflega góður, sá besti sem ég hef borðað á í Danmörku. Þrjár og hálf stjarna. Næst röltum við í Sívalaturninn. Hann er mikið skemmtilegri en Frelsarakirkja. Há girðing á útsýnispallinum og síðan er bara svo traustur. Ég treysti honum allavega. Ég fór líka á salernið þarna, ekki gamla sem allir frægu notuðu heldur það nútímalega. Það er svoltið fyndið. Sívali turninn hefur líka vísindalega sögu sem ég fíla.
Eftir þetta fór ég með Eggert í nördabúðarúnt. Keypti reyndar ekkert. Við skyldumst að frekar snemma og ég fór nærri beint á lestarstöðina. Lestin á Kastrup var mjög loftlaus, allavega minn vagn. Ég fiskaði Aloa Vera gelið úr töskunni og bar á mig. Gleymdi sólarvörninni í morgun og hef verið að stikna í allan dag.
Á Kastrup fór ég í fyrsta skipti með Tax Free miða. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að bera mig að en það reddaðist. Tók hins vegar heillangan tíma. Þegar ég kom að röðinni að tjékkininu þá var hún ömurlega löng. Ég ákvað því að sjá hvort ég gæti tjékkað mig inn í þar.
Þriðjudagur 17. júlí 2007
heima á Íslandi
Tölvan slökkti á sér áður en ég gat klárað að skrifa ferðasöguna eða dagbókina í gær. Ég held því bara áfram.
Það virkaði að nota sjálfsafgreiðsluvélina. Ég vissi reyndar ekki alveg hvernig ég ætti að líma farangursauðkennisdótið á töskuna en það reddaðist. Ég skutlaði síðan töskunni í farangurs drop off og fór upp. Röðin hafði lítið hreyfst á meðan.
Öryggistjékkið var leiðinlegt að vanda. Ég náði samt reyndar að rölta í gegn með beltið mitt án athugasemda. Ég hafði reyndar losað það en gleymdi að taka það alveg af. Það er alltaf bjánalegt að sjá fólk sem er nýkomið í gegnum öryggistjékk vera að festa á sig beltin og laga sig til á allan hátt. Ég skoðaði mig aðeins um, keypti mér sódavatn og tyggjó og hlammaði mér síðan niður á þægilegan stað til að hvíla lúin bein.
Eftir að tölvan slökkti á sér þá fór ég af stað með það að markmiði að rölta bara að hliði mínu og fara inn í vél. Á töflunni var hins vegar tilkynning um tveggja tíma seinkun. Það gladdi mig ekki. Ég ákvað þá að hringja í Eggert og sjá hvort hann væri ekki að koma. Hann var að fara í flug rúmum tveimur tímum á eftir mér. Ég náði í hann og hann var bara að fara að tjékka sig inn. Hann lenti í veseni í öryggistjékkinu enda með ógnvænlega vökva á sér. Öðrum var hent en hinn fór í lítinn poka sem á einhvern töfrakenndan hátt gerði hann skaðlausan.
Við fengum okkur að borða á stað sem hét Kitchen & co eða eitthvað álíka. Mjög slakur hamborgari en allt í lagi franskar. Tvær stjörnur er örlátt af minni hálfu. Ég borða þar aldrei aftur. Síðan sátum við bara, spjölluðum og biðum.
Vélinni minni seinkaði ekkert mikið umfram þessa tvo tíma. Í henni voru ótal unglingsstúlkur sem höfðu víst verið að keppa í fótbolta. Þær voru fullmikið á ferðinni og alltaf að skipta um sæti. Ég man nú eftir að hafa verið í Flugleiðavél þar sem okkur Eygló var neitað um að færa okkur í sætaröð þar sem við gátum verið tvö ein saman.
Það var semsagt ýmislegt sem fór í taugarnar á mér í þessari flugferð. Það að vélin var sein var í sjálfu sér ekkert höfuðatriði en hins vegar voru ótal smáhlutir sem flugfreyjurnar gerðu sem fóru í mig. Þær voru voðalega einbeittar í að þjónustu þessar fótboltastelpur en hunsuðu mig meira og minna þegar ég vildi eitthvað. Til dæmis var ég þrisvar spurður um hvað ég vildi drekka án þess að fá nokkuð. Í fjórða skiptið þá náði ég að biðja um kók en þá var það búið í þeim vagni. Flugfreyjan var ekkert að spyrja hinar um það hvort að þær ættu kók heldur fékk ég bara boð um Coke Light sem ég vildi augljóslega ekki. Ég fékk semsagt ekkert að drekka. Síðan tók sama flugfreyja og eyddi lengri tíma í að tala við fótboltastúlkurnar fyrir aftan mig sem hefði verið í lagi ef hún hefði ekki verið endalaust að halla sér á sætið mitt og ýta mér þannig fram og til baka. Síðan helltist eitthvað niður af einum vagninum og bleytti bakpokann minn. Ég tók ekki eftir því strax og ef taskan hefði verið aðeins þynnri þá hefði fartalvan væntanlega getað skemmst. Fíflfíflfífl. Ótal svona hlutir. Og þau báðu ekki afsökunnar á því seinkuninni.
Ég reyndi að horfa á myndina sem var sýnd á leiðinni en rússneska konan við hlið mér vildi endilega ræða við mig þar til að hún komst að því að vegna þreyttu og pirrings þá hafði ég ekkert áhugavert að segja. Þegar ég lenti dreif ég mig að kaupa áfengi fyrir Eygló. Ég gekk líka í gegnum tollinn án athugasemda að vanda. Aldrei verið tekinn fyrir en ég hef ekki heldur verið að reyna að smygla neinu þannig að hugsanlega er innsæi tollvarðana ágætt.
Eygló tók á móti mér og keyrði mig heim.
Ég er sólbrunninn á hnakka og handleggjum. Í raun er ennið líka brunnið en ég bara Aloa Vera gel snemma á það þannig að það er mun skárra en hinir líkamspartar mínir. Ég hefði getað reddað bara inn á Kastrup á meðan ég beið en það er víst auðvelt að sprengja flugvélar með Aloa Vera geli þannig að það fékk ekki að fara með í handfarangri. Ferðin heim var krapp en það er gott að vera kominn heim.