Stutta ferðasagan

Ég skráði mig í sumarskóla í Árósum í sumar. Efni námskeiðisins voru sögur Íslendinga. Það er svo sem ótengt flestu öðru í námi mínu en mig langaði samt að fara. Að einhverju leyti heillaði efnið en líka bara að fá hitta fólk víðs vegar að. Námskeiðið var tvær vikur og komu kennarar frá Danmörku, Íslandi og Svíþjóð (og Bandaríkjunum ef Matthew er ekki talinn með þeim sem komu frá Danmörku).

Við Eygló flugum út rétt eftir miðnætti þann 30. júní. Við höfðum ekkert náð að leggja okkur kvöldið eða daginn áður og vorum því dauðþreytt þegar við komum í Kaupmannahöfn rúmlega sjö að morgni. Við höfðum engan stað til að fara á og enduðum með að leggja okkur í um tvo tíma í garði Rósenborgarhallar. Það var merkilega notalegt og bjargaði okkur alveg.

Svenni, Hrönn og Freyr komu til Kaupmannahafnar seinna um daginn og við ráfuðum um með þeim þar til að við fengum orlofsíbúðina sem þau höfðu bókað. Á sunnudaginn fórum við til Kristjaníu með Eggert áður en við tveir fórum í lest til Árósa. Við áttum að vera mættir fyrir klukkan sex á heimavistina. Okkur rétt tókst það þrátt fyrir að hafa fengið afar slakar leiðbeiningar frá innfæddum lestarfélaga okkar.

Innfæddi stúdentinn sem sá um okkur heitir Michael. Ég hélt fyrst að hann væri voðalega góður með sig en áttaði mig seinna á því að hann var bara dálítið feiminn. Hann þurfti reyndar ekki að mikið að aðstoða mig. Mér skildist að það hefði reynt mikið meira á Niels sem sá um þetta í fyrra. Þeir tveir blönduðust
Þetta kvöld var hittingur. Þar hittum við kennarana, þar á meðal Ármann. Allir kynntu sig en hópurinn blandaðist nær ekkert. Fólk var aðallega með löndum sínum. Reyndar var það þannig að mestu fyrri vikuna. Við spjölluðum að sjálfssögðu eitthvað við nær alla en ekkert mikið meira en það.

Almennt eldaði ég fyrir okkur Eggert og við fórum ekki mikið út að borða. Ég keypti líka nokkrum sinnum flegna snigla sem vorum góðir.

Danskan mín batnaði þegar á leið. Ég var líka farinn að svara Dönum á skandínavísku þegar um einfalda frasa var um að ræða. Ég held að ef ég myndi eyða svona mánuði í Danmörku umkringdur Dönum þá væri danskan mín orðin boðleg. Í búðum og á veitingastöðum reyndi ég að nota dönsku eins og ég gat, verst var með upphæðir. Það var fyndið að tala enskuna við Bretana, sérstaklega þegar þeir fóru út í málýskurnar.

Ég veit ekki hvað maður ætti að segja um kennsluna. Ármann var án efa áhugaverðasti kennarinn og var duglegur að kynnast nemendum. Danirnir voru held ég ekki alveg alltaf allir að fatta hann en aðrir voru að mestu með á nótunum. Hann er með áhugaverða tækni við að skrifa á töfluna. Trine, sem var næsti kennari á eftir á Ármanni, fattaði ekki hvers vegna nemendahópurinn sprakk úr hlátri þegar hún baðst afsökunnar á því sem hún taldi vera óskipulögð töfluskrif.

Eygló kom á föstudaginn og eyddi helginni með okkur. Við fórum með Eggert í Gamla bæinn sem olli örlitlum vonbrigðum. Eggert reyndi að drekkja okkur þar en tókst ekki. Á laugardagskvöldið var grillveisla og partí. Það var skemmtilegt, sungið og síðan fékk Þjóðverjinn Matthias mig, hinn velska Owen og Svíann Magnus til að dansa suður-bæverskan þjóðdans. Dansinn vakti mikla lukku og ég mæli með upptökunni. Þarna byrjaði ég fyrst að kynnast Bretunum sem ég umgekkst mikið seinni vikuna. Helen og Helen sögðu mér ýmsar sögur af hefðum og siðum í sínum heimahéruðum.

Á sunnudaginn skoðuðum við Grábólumanninn. Eygló fór heim og ég lenti í endalausum strætóvandræðum. Á mánudaginn litu Hafdís, Mummi og Sóley í heimsókn og við skruppum út saman.

Í seinni vikunni eyddi ég töluverðum tíma í eldhúsinu með „Bretunum“ (það er að segja Owen, Helen hin svarta, Helen hin rauða, Louis, Michael hinn danska og Mariu hinni norsku) og drakk töluvert af tei með þeim. Ég las líka töluvert þá vikuna. Kvöldið fyrir munnlega prófið var hins vegar ekki lesið heldur horft á Return of the King með „commentary“ frá hópnum sjálfum. Ég benti á ákveðin líkindi með Merry og Harry prins þegar hinn fyrrnefndi var að væla yfir því að komast ekki í bardaga.

Prófið gekk ekkert sérstaklega vel en það gekk. Ást í riddarasögum er ekki mitt helsta áhugasvið og mér þótti ekki gaman að tala um þetta efni í hálftíma. Stóðst prófið samt. Um kvöldið fórum við út að borða. Fólk fékk brennivín og var mishrifið. Einnig var skálað fyrir ýmsu, þ.á.m. Sigurði Nordal, Finni Jónssyni og móður Finns. Við enduðum á þægilegum bar þar sem við gátum setið úti án þess að verða fyrir óhóflegum reykingum. Þarna var spjallað og fíflast fram á nótt. Reyndar komum við okkur heim áður en klukkan var orðin of margt enda flestir á heimleið snemma daginn eftir. Göngutúrinn tók um klukkutíma og var aðallega bara notalegur.

Morguninn eftir komum við Eggert okkur snemma af stað á brautastöðina. Daginn áður hafði ég keypt lestarmiða handa okkur á fyrsta farrými. Þó það hafi bara vegna skorts á miðum á almennu farrými þá var þessi lúxus peningana virði.

Í Kaupmannahöfn gistum við á Saga hótel. Það var ekki peningana virði. Allavega ekki sturtan. Við fórum á Þjóðminjasafnið, vaxmyndasafnið, dýragarðinn og Sívalaturninn. Fluginu mínu seinkaði og ég endaði með Eggert á flugvellinum. Segi sem minnst um flugið sjálft þar sem það fór mikið í taugarnar á mér.