Í apríl skrifaði ég þetta:
Það má samt bæta því við að mér þykir óþarfi að fólk fái að blogga um alvarlega glæpi, til dæmis morðmál. Fólk getur verið svo mikið fífl í svona aðstæðum. Þar að auki virðist þetta oftast vera bara athyglissýki í þessu fólki, sérstaklega á Moggablogginu (athugasemdirnar á Vísi eru bara allt annars eðlis þó þær geti líka verið ósmekklegar og heimskulegar).
Mogginn og Vísir þurfa að taka á þessum málum. Það eru nokkrar lausnir sem eru færar. Ein leið væri að banna algjörlega komment á ákveðnar fréttir. Einnig væri hægt að fara þá leið að það þyrfti að samþykkja komment/blogg um sumar tegundir af fréttum.
Í gær var þessi athugasemd við ákveðnar fréttir á Vísi:
Vegna eðlis þessarar fréttar er ekki boðið upp á að lesendur geti lýst skoðunum sínum á henni.
Vísir hefur tekið á þessum málum en Moggabloggið er ennþá á sama stiginu. Fólk sem fylgdist með fréttum þar fékk að upphrópanir, kenningar og kjaftæði bloggara. Þetta er Morgunblaðinu einfaldlega til skammar. Það er gríðarleg ábyrgð hjá fjölmiðli að leyfa hverjum sem er að tjá sig um fréttir þess þannig að allir geti séð. Í gær sást að þetta virkar einfaldlega ekki.
Mogginn þarf að taka á þessu en vandamálið er að Moggablogginu er stjórnað af fólki sem virðist ekki skilja blogg, netið eða fjölmiðla yfirhöfuð. Ábyrgð er lykilatriði sem virðist alltaf gleymast þarna.
Bloggararnir sjálfir hefðu líka átt að hafa vit á því að sleppa þessu. Þeir eiga líka að bera ábyrgð á eigin skrifum. Ef þeir sem vildu tjá sig um þetta mál hefðu til dæmis gert það án þess að tengja það við fréttirnar þá hefði það verið miklu betra (og margir hafa líklega farið þá leið). Mig grunar að margir þeir sem tengdu bloggin sín við þessar fréttir hafi fyrst og fremst verið að hugsa um teljarann sinn. Þeir vissu að þessar fréttir yrðu þær mest lesnu á Morgunblaðsvefnum og tengdu við þær til þess að fá athygli.
Hin einfalda staðreynd er að við erum lítið land og það gerir svona hluti miklu erfiðari. Það er voðalegt að strá salti í sár þeirra sem eiga erfitt eftir svona mál.
p.s. Ég sé að Mogginn hefur fjarlægt tengingar á blogg við aðalfréttina um málið en ennþá eru tengingar á blogg við aðrar fréttir um það. Full lítið, full seint.