Oddi í tíma, mat og hljóði

Sit í Odda. Get skellt tónlist á því ég þarf ekki að hlusta á viðmælendur mína tala á 42% af upprunalegum hraða. Allt slíkt er búið í bili.

Það er undarlegur hljómburður í þessu húsi. Ég var hérna inn á mínu rými og mér heyrðist Terry vera að tala hérna rétt fyrir utan á þriðju hæðinni. Ég kíkti út og enginn var þar. Ég fór aftur inn og heyrði aftur í Terry. Ég kíkti út en þar var enginn.

Í þriðja skiptið fór ég og kíkti hvort hann væri hérna inn á ganginum sem leiðir að fundarherberginu en þar var hann ei. Á leiðinni til baka þá kíkti ég niður og sá Terry spjalla við Dáithí á fyrstu hæðinni.

Ég rétt kastaði á hann kveðju enda var ég ekki beint að leita að honum til að spjalla heldur var ég bara að reyna að finna hvaðan röddin kæmi. Ég heyrði nefnilega betur í honum heldur en í fólki sem er að spjalla hérna handan við skilrúmið. Þetta hús er semsagt ekki hannað fyrir fólk sem vill fá að frið til að læra.

Ég skrapp áðan niður og ákvað prufa kjötloku með hakki. Sósan var svo skelfilega vond að ég þurfti að kaupa mér Prins Póló til að drepa bragðið.

Afgreiðslukonan reyndi í þetta skipti ekki að henda eigum mínum. Í síðustu viku hellti hún er flösku af Toppi sem ég var með þarna á meðan ég var að grilla samloku. Í fyrradag þá reyndi hún það aftur en spurði mig reyndar fyrst. Hún var síðan komin dálítið í burtu þegar hún spurði mig „átt þú þetta kannski líka?“ og veifaði lokinu af plastdallinum sem ég kom með matinn minn í. Ég fékk lokið aftur.

En írskan er búin, próf eftir tvær vikur og stutt ritgerð aðeins seinna og þá hef ég væntanlega lokið síðasta kúrsinum sem ég mun taka í Háskóla Íslands. Ég er að hefja fimmta árið í HÍ. Það var ekki á upprunalega planinu.