Í nýjustu færslu sinni þá heldur Egill Helgason því fram að Richard Dawkins sé „síst minni ofstækismaður en margt af því fólki sem hann er að fjalla um.“ Það þarf nú ekki að hafa lesið mikið eftir Dawkins til að vita að þetta er bull, það bendir líka ekkert til þess að Egill hafi lesið neitt eftir hann.
Það sem mér finnst eiginlega áhugaverðast er að Egill hefur reglulega níðst á Dawkins en hefur hins vegar lýst yfir ánægju með annan minna þekktan guðleysingja sem heitir Sam Harris. Ef við berum þessa tvo menn saman þá er Harris miklu harkalegri.
Aðalmálið er væntanlega að Egill Helgason þekkir ekki nægilega til þessara manna til að geta borið þá saman en það er hins vegar líka mjög mikilvægt að muna að Sam Harris eyðir miklu meiri púðri á Íslam en Dawkins. Það er það sem Egill fílar. Hann nennir ekki að hlusta á neikvætt umtal um kristni en þegar einhver er að gagnrýna Íslam þá kætist Egill. Það skiptir engu þó að hugmyndafræðilegar rætur gagnrýninnar séu þær sömu.
Sjálfur hef ég alltaf stutt það að best sé á að byrja að taka til í eigin bakgarði, þess vegna beinist mín gagnrýni helst á þjóðkirkjuna. Það tryggir líka að maður viti betur hvað maður er að tala um en Egill er meira fyrir að gaspra um það sem hann veit ekkert um (enda þyrfti hann annars að takmarka tjáningar sínar við afar afmörkuð svið).
Annars þá er kannski réttast að hvetja Egil til þess að leita til skottulækna næst þegar hann veikist. Það er að sjálfssögðu stórhættulegt en þeir eru allavega „vinalegir“.