Við hittumst 9:40 á rútu/strætóstöðinni hérna í miðbænum. Við vorum Johannes, Jessica, Isabel, Sebastian, Marcus, Anegrid (hvernig sem maður stafar það) og Nicky sem ég var að hitta í fyrsta skipti. Jessica er sænsk, hin þýsk. Við tókum flugvallarútuna og keyptum í leiðinni miða til baka líka. Á flugvellinum varð töluvert vesen við að fá tvo bíla eins og við áttum að fá. Að lokum gekk það. Tveir Opel Corsa. Þjóðverjar sko.
Það var töluvert erfitt að komast af stað. Fyrsta tilraun endaði í úthverfi Cork þar sem við ákváðum að nýta tækifærið og versla í Tesco. Við fórum aftur af stað og einhvern veginn náðum við tvisvar að fara í gegnum Kinsale (sem ég fór til um síðustu helgi) áður en okkur varð eitthvað ágengt. Vegirnir á Írlandi eru hræðilega mjóir. Mér þótti líka frekar óþægilegt þegar var verið að keyra vinstra megin. Sérstaklega þegar ökumennirnir virtust halda að þeir væru á Autobahn.
Þjóðverjarnir voru reyndar frekar óþægilegir um helgina af því að þeir töluðu fullmikla þýska. Nokkrum sinnum voru ákvarðanir teknar án þess að ég gæti tjáð um þær. Reyndar held ég að þeir haldi að ég skilji meira en ég geri. Þetta fæ ég fyrir að láta þá vita að ég lærði þýsku í þrjú ár. Í staðinn reyndi ég að pratta svensku við Jessicu sem gekk misvel.
Eina alvöru stoppið okkar þann daginn var í Baltimore. Sá staður varð fyrir Tyrkjaráni árið 1631. Þá var 200 manns rænt en restin fór og stofnaði nýjan bæ sem heitir Skiperdeen. Baltimore er þó í byggð í dag og þar sáum við Skt. Bernharðshund. Sá gelti fyrst að okkur en lagðist síðan niður og leyfði mér að klappa sér. Við fórum síðan eftir hræðilegum vegi upp að útsýnisstað. Þar var mjög bratt og dálítið flott. Það var samt þannig alla ferðina að ferðafélagar mínir voru hrifnari af hafinu en ég, væntanlega hef ég haft töluvert betra aðgengi að því en þeir í gegnum tíðana.
Um fimmleytið komum við til Bantry og tjékkuðum okkur inn á hostelið okkar. Frekar ódýrt, kostaði rúmar 12 evrur en við vorum öll í sama herberginu. Ég reyndi að sannfæra hópinn um að það væri mest gaman að fara bara út að borða en Þjóðverjarnir ákváðu að vera sannir þjóðarímynd sinni, það var sko of dýrt. Í staðinn keyptum við kjúklingabringur og Uncle Ben’s sósu. Reyndar er keyptum illa orðað því Isabel fékk víst meira til baka en hún borgaði. Sjálfur hefði ég nú skilað peningunum en ég fór ekki að rökræða þetta þarna.
Maturinn var frekar lítið spes en líflegur þar sem náungi að nafni Larry var sífellt að koma og spjalla við okkur. Sá var frekar fullur og óskiljanlegur. Við spjölluðum við umsjónarkonuna og mér skyldist á henni að hann byggi eiginlega þarna. Þegar við vorum búin þá kom ég með klassískan brandara og svaraði Larry að nei, ég væri ekki finnskur. Eftir þetta fórum við út á pöbb. Ungir Írar vísuðu okkur á The Cozy Cabin sem var í alvörunni kósí. Arineldur, létt og lágvær tónlist og James Bond í sjónvarpinu. Í loftinu héngu síðan skreytingar frá síðasta áramótateiti, væntanlega til að langt leiddir gestir vissu allavega hvaða ár væri.
Við enduðum síðan með að fara í háttinn um ellefu. Johannes svaf í kojunni fyrir ofan mig eftir að hafa yfirgefið sína þar sem hún var frekar vafasöm. Johannes ruggaði okkar koju dáltið mikið þar til að ég hótaði að gera eitthvað nastí við hann sofandi og setja mynd af því á Facebook.
Við fórum á fætur fyrir níu, borðuðum snöggt og komum okkur af stað. Ég fékk dáltinn höfuðverk í bílnum í dag þar sem Marcus ákvað að láta á sig einhvern ógeðsrakspíra í stað þess að fara í sturtu. Ferðinni var heitið á stað sem er ekki einu sinni í minni ferðahandbók þó sú um þetta svæði sérstaklega. Við röltum semsagt yfir jörð einhvers í átt að stað sem heitir Three Castle Head. Á leiðinni sáum við smáhest, mjög smáan (örlítið stærri en Skt. Bernharðshundurinn) og fullt af rollum. Við sáum líka fullt af skiltum sem vöruðu við að eigendur jarðarinnar bæru enga ábyrgð á áfangastaðnum. Eftir frekar stutta göngu komu í ljós þrír turnar. Þeir voru víst reistir á 15du öld en eru alveg að hrynja. Við Marcus skoðuðum þá frekar vel en hin voru meira að skoða landslagið. Þetta var alveg rosalega flott. Við borðuðum síðan þarna fyrir ofan með útsýni yfir Atlantshafið.
Við röltum til baka og fórum síðan á staðinn sem var víst aðalmálið. Þetta er semsagt eitt af útnesum Írlands. Þarna er líka „eyja“ með vita og út í hana er brú sem er í tugmetra hæð (man ekki nákvæmlega). Við fórum þarna, skoðuðum útsýnið og ég fríkaði ekkert út vegna hæðarinnar. Allir voru spurðir um þjóðerni og vörðurinn sagði að hann hefði aldrei áður fengið Íslending þangað. Á leiðinni frá vitanum sáum við strönd og fórum þangað. Þar tók Sebastian smá sundsprett. Ég lét það sjálfur vera.
Það gladdi mig mjög þegar við ákváðum að kíkja á Drómbeg steinhringinn. Ég kættist svo að ég rölti af stað á undan öllum hinum. Þarna eru að mig minnir 17 steinar í hring með einum „altarisstein“. Þessi aðalsteinn þarna er þannig að staðsettur að sólin skín á hann á vetrarsólstöðum. Rétt hjá er síðan einhvers konar úti eldhús. Við tókum frekar skondnar hópmyndir þarna. Átta myndavélar fóru á „altarissteininn“, allar stilltar á timer og síðan hlupu allir og stilltu sér upp. Virkaði frekar vel. Ég var greinilega langspenntastur fyrir þessu og var síðastur til að koma mér af stað aftur að bílnum. Þetta er bara svo heillandi. Hvað gerðu þeir þarna? Var fólki fórnað?
Þá var tími til að koma okkur heim á leið. Við vorum hins vegar ekki kát þegar við komum á flugvöllinn og sáum að rútan kæmi ekki fyrren rúmum klukkutíma seinna. Við Jessica og Marcus stungum upp á leigubíl en hinir Þjóðverjarnir ákváðu að standa á bak við sína ósanngjörnu steríótýpu og vildu bíða. Það var ekkert of slæmt. Við fengum okkur að borða á Subway. Þjóðverjarnir tóku flestir kafbát mánaðarins en ég skellti mér á kjötbollubátinn sem ég held að fáist ekki lengur á Íslandi. Ég tók líka 12 tommu. Ég varð líka saddur ólíkt þeim.
Jæja, síðan var það bara rútan, eða strætó öllu heldur heim og síðan beint á netið. Núna á ég bara eftir að flokka 400 myndir sem ég tók.
