Til læknis og í skjalasafn

Í morgun fór ég til læknis. Ástæðan fyrir förinni var sú að ég hef áhyggjur af því hvað gerist þegar ég fer í flug með svona þrýsting fyrir eyranu. Í fyrra fékk ég mjög sársaukafullar hellur þegar ég var að fljúga frá Svíþjóð.

UCC er með læknisþjónustu fyrir nema og það kostar ekkert. Ég mætti klukkan 9:40 vongóður um að komast inn 9:45 þar sem ég átti bókaðan tíma þá. En ég beið og ég beið, fólk sem kom inn á eftir mér komst að á undan. Ég var orðinn mjög pirraður enda þurfti að vera kominn út í þjóðfræðideild fyrir 10:30. Á tímabili hélt ég reyndar að ég hefði misst af einhverju því ég skyldi ekki allt sem stúlkan í afgreiðslunni sagði. Hún var með mjög þykkan hreim.

Ég komst loks að klukkan 10:18. Ég hitti fyrst hjúkrunarkonu sem var mjög hjálpleg. Þegar ég sagði henni að ég væri að verða seinn þá veiddi hún lækninn snöggt inn. Sú staðfesti að það væri einhver vökvi fastur í eyranu og það gæti valdið sársauka í flugi. Þær létu mig síðan hafa nöfn á tveimur lyfjum sem ég tek til að slá á einkennin og losa stíflur. Það bjargar vonandi flestu.

Ég mætti á réttum tíma út í þjóðfræðideild. Þar stukkum við upp í taxa sem fór með okkur út í skjalasafn borgarinnar. Með okkur meistaranemum voru lengra komnir nemar úr grunnnáminu. Ágætt að hitta þau. Túrinn um skjalasafnið var ágætur. Í raun var þetta eins og að vera kominn aftur í bókasafns- og upplýsingafræði. Þetta var reyndar ágætis safn í fyrirmyndar húsnæði.

Þegar ég kom loksins heim, eftir að hafa farið í annan tíma eftir hádegi, þá borðaði ég yndislega langloku úr Centra og sofnaði síðan sáttur horfandi á Seinfeld. Svona lifi ég spennandi lífi. Hefði reyndar getað farið að spila í kvöld eða á djasstónleika en ég var einfaldlega of þreyttur til að nenna því.