Stjörnuryk

Við Eygló ákváðum að skreppa í rúmlega tíubíó á myndina Stardust. Sú byggir á sögu eftir Neil Gaiman sem ég var mjög hrifinn af. Ég verð að játa að fyrirfram var ég ekki sannfærður um að myndin myndi gera sögunni góð skil þar sem sýnishornið sem ég sá úr henni fyrir nokkru var frekar slappt. Það var ekki langt liðið á myndina þegar ég áttaði mig á að ótti minn væri ástæðulaus. Þetta var ákaflega vel gert. Fyrirtaks mynd alveg og vel hægt að mæla með henni.

Ég fékk síðan einmitt tilkynningu frá Amazon í dag um að annað bindið af Absolute Sandman væri á leiðinni. Það gladdi mig þó ég hafi væntanlega ekki tækifæri til að skoða bókina fyrren í desember.