Ég er svolítið flughræddur. Ekkert rosalega en þó þannig að það mér líður illa í flugi. Á föstudaginn flugum við Eygló til Vopnafjarðar. Ég var alveg á mörkunum að hætta við að fara af því að tilhugsunin um flugið var erfið. Það er nefnilega þannig að á milli á Akureyrar og Vopnafjarðar er farið á Twin Otter sem á það til vera frekar óþægileg í flugi. En ég lét mig hafa það.
Það sem kom á óvart á föstudaginn var að flugið milli Akureyrar og Vopnafjarðar var draumur. Twin Otterinn hreyfðist varla. Hins vegar var flugið milli Reykjavíkur og Akureyrar í Fokker alveg hörmung. Flugið hafði verið merkt „í athugun“ þar til klukkutíma fyrir brottför þannig að við vissum að flugið gæti orðið óþægilegt. Við vorum líka vöruð við að það yrði ókyrrð fyrstu mínúturnar eftir flugtak. Síðan varð þetta svona allt í lagi og flugfreyjan byrjaði að gefa fólki kaffi og vatn en þó fór vélin að láta frekar illa. Flugfreyjan þaut með vagninn aftur og aflýsti veitingum. Á sama tíma sá ég kaffið beinlínis hoppa úr bollum tveggja manna sem höfðu fengið þjónustu. Sýndist það lenda að mestu á þeim. Eygló sem er alltaf svo róleg í flugi var líka orðin frekar stressuð á þessum hoppum og vagginu.
Svona var síðan flugið alla leið norður. Aðflugið í Eyjafirðinum er líka alltaf hörmung. Ég er enginn sérfræðingur en mig minnir að það sé hægt að fara örlítið lengri leið í gegnum Hörgárdal og sveigja aftur inn Eyjafjörðinn en það er langt síðan ég hef vitað að þeir fari þá leið. En við sátum þarna í rúman hálftíma á flugvellinum líðandi eins og líffærin hefðu öll snúist eitthvað á hvolf. Verst var þó að vita að við þyrftum að hoppa rétt strax aftur upp í næstu vél. En eins og fyrr segir var Twin Otterinn dásamlegur þarna.
Í morgun var síðan strætóflugið. Frá Vopnafirði er flogið í um 15 mínútur til Þórshafnar. Þar er maður í um tíu mínútur áður en farið er til Akureyrar. Það er spes að sitja svona framarlega í Twin Otter. Það er til dæmis fyndið að geta fylgst með stöðu flugvélarinnar á skjánum sem flugmennirnir eru sjálfir að nota. Já, þarna er Langanes, Melrakkaslétta, Axarfjörður og augljóslega heilmargir staðir sem ég kann ekki einu sinni að nefna. Þetta er líka voðalega kammó flug. Flugmennirnir geta bara litið aftur í og spurt hvort það fari ekki bara vel um mann. Líka fræðandi að hlusta á þá fara yfir tjékklistann. Gott að vita að það er tjékkmerki við allt.
Á Akureyri var hálftíma stopp áður en við fórum aftur upp í Reykjavíkurvélina. Hafdís kom snöggt á flugvöllinn og heilsaði upp á okkur áður en við þurftum að fara.
Sem betur fer var þessi seinni ferð frekar tíðindalítil heild. Mér hefur nefnilega á stundum liðið hörmulega strax eftir fyrstu lendinguna. Úff. Gott að vera kominn heim.