Ef mér leiðist óhóflega í ellinni þá er ég að spá í að stunda fyrirlestra. Ekki til að fræðast. Ónei. Ég ætla að finna mér fyrirlestra þar sem ég get fundið einhverjar upplýsingar sem tengjast efni þeirra óljóst. Síðan verð ég fyrstur upp með höndina þegar spurningatími hefst. Þá mun ég ekki spyrja um neitt heldur tala um þetta efni sem ég fann og gefa í skyn að fyrirlesarinn sé nú frekar vitlaus að hafa ekki rætt um það eða vitað af því. Ef ég er í góðu stuði mun ég síðan fara út í eitthvað efni sem ég er sérfróður um þó það tengist fyrirlestrinum alls ekki neitt.
Mér sýnist á þeim gamalmennum sem stunda þetta að þetta gæti verið mjög gaman.
Á svipuðum nótum þá er ég að semja lista yfir fólk sem kemur með svona ræður í spurningatímum til að geta látið henda því út þegar ég er með fyrirlestra.