Badminton, kaup, matur og bíó

Mikið er ég glaður að vera kominn með tvo fasta badminton tíma í viku. Þetta er svo hressandi. Vorum núna áðan og gátum verið lengur af því að enginn var á vellinum á eftir okkur. Ég var í allt í 80 mínútur og spilaði sjö leiki. Það var sérstaklega gott að við Siggi gátum spilað aðeins lengur svo við þyrftum ekki að bíða jafn lengi eftir stelpunum. Mér líður semsagt vel í skrokknum.

Þetta var aðeins til að vinna á móti gærdeginum. Ég fékk þá köku í vinnunni. Síðan fórum við á bókamarkað og keyptum fyrir rúmar sjöþúsund minnir mig. Skruppum í Nexus og skoðuðum þar. Hefðum keypt ýmislegt ef við hefðum ekki verið á eyðslufyllirí í London fyrir viku. Meðal annars áttu þeir Guillotine. Ég mæli með að þeir sem aldrei hafa farið í Nexus eða hafi ekki gert það lengi líti þar við. Þetta er þvílík eðalbúð. Þeir eru líklega með eitt besta dvd úrval í borginni og þá munar um að þeirra úrval er töluvert öðruvísi en í stóru búðunum öllum.

Eldsmiðjan var kvöldverðarstaðurinn. Þegar við vorum ný sest niður þá koma Hrönn og Bryndís inn. Eygló og Hrönn höfðu einmitt verið að reyna að hittast til að koma gjöf til afmælisbarns morgundagsins en ekki náð að stilla sig saman. Ekki tókst það og Hrönn var ekki með gjöfina með sér þarna. Við borðuðum síðan saman. Maturinn var góður en brenndari en venjulega. Reyndar týndist pöntunin okkar og við þurftum að panta aftur.

Við fórum síðan á Be kind rewind. Sú mynd var spes, fyndin og góð. Mæli með henni.