Ályktanir eru ekki hlutir til að hrapa á. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson doktor í fornleifafræði bloggar um fund á nisti sem fannst í gröf í Austurríki, líklega frá þriðju öld. Á nistinu er ristur gyðingleg bæn. Doktorinn segir:
Þessi merki fundur þýðir að gyðingar voru í Austurríki áður en forfeður flestra þeirra sem þar búa í dag voru komnir almennilega úr þjóðflutningunum.
Ég læt vera að ræða um hvernig þessir þjóðflutningar fóru fram á þessum tíma og einbeiti mér að fullyrðingunni um að þetta sýni að gyðingar hafi verið í Austurríki á þessum tíma. Vilhjálmur segir það líka ólíklegt að „einhverjir sem ekki voru gyðingar hefðu borið [nistið] um hálsinn.“ Ég er ekki alveg sammála.
Á Norðurlöndum hefur fundist Búddastytta sem kom væntanlega þangað á víkingatímanum. Þýðir það að Búddistar hafi verið komnir þangað á þeim tíma? Ónei. Það er mun líklegra að einhverjir víkingar (í mjög víðri merkingu þess orðs) hafi haft styttuna með sér þangað. Styttan er því aðallega merkileg fyrir það að hún sýnir að samskiptanet þess tíma var náði mjög langt.
En hvers vegna ætti einhver sem ekki er gyðingur að ganga með nisti með gyðinglegri bæn? Í raun felst lausnin í því að átta sig á því að þó gyðingar og kristnir menn hafi litið á sinn guð sem hinn eina guð þá gátu aðrir litið á hann sem einn af mörgum guðum. Það er áhugavert að bænin er örlítið öðruvísi á nistinu en hún er yfirleitt. Í stað þess að þar standi að guðinn sé sá „eini“ þá stendur að hann sé „Alfa“. Þetta gæti verið af því að plássið leyfði ekki meira en mér dettur líka í hug að þetta sé einfaldlega leið til að segja að hann sé fremstur eða mestur. Þegar formúlan hefur verið brotin á þennan hátt er orðið líklegra að einhver sem er ekki gyðingur hafi gengið með nistið.
Við þetta bætist að það hafa ekki fundist neinir aðrir gripir þarna sem benda til nærveru gyðinga. Ef líka er tekið tillit til að á svæðinu eru ýmsir aðrir helgigripir greinilega ætlaðir til verndar, einn þeirra sem ákallar Artemis. Mér finnst í raun líklegt að hér hafi verið á ferðinni fólk sem var að leita verndar þeirra guða sem þeir töldu máttuga.
En ég tek fram að ég útiloka ekki neitt og ég verð að segja að mér þætti mjög áhugavert ef það væri sýnt fram á að gyðingar hefðu verið á þessu svæði á þessum tíma. Þetta er bara engin sönnun. Það að koma fram og segja að gripur sýni fram á eitthvað merkilegt er náttúrulega góð leið til að ná athygli fjölmiðla og mig grunar að það sé ástæðan fyrir því að efasemdir fá ekki meira rúm í umfjölluninni. Þarna er í raun fyrst og fremst að vera að auglýsa sýningu og til að gera það þá er verið að reyna að gera einn grip áhugaverðari en hann er í raun.
En endilega lesið ykkur meira til ef þið hafið áhuga:
3rd century amulet – sign of earliest Jewish life in Austria
Archaeological sensation in Austria
Archaeological sensation in Austria. Scientists from the University of Vienna unearth the earliest evidence of Jewish inhabitants in Austria
segjum að „hinn g******i“ Vilhjálmur Póstur í DK hefði rétt fyrir sér..segjum það!…hvaða máli skiptir það??????????????????????
Það skiptir töluverðu máli ef maður hefur áhuga á svona hlutum.