Þeir sem halda að Hannesarmálið snúist einungis um dóminn sem hann fékk ættu að kíkja á úttekt Helgu Kress. Þar koma fram dæmi þar sem Hannes virðist hafa haft texta frá öðrum fræðimönnum fyrir framan og umorðað bara örlítið án þess að geta heimilda. Þetta virðist ekki geta verið óviljaverk nema textinn hafi greipst inn í minni Hannesar.
Ég neita alfarið að hér sé verið að ofsækja manninn. Að mínu mati er Páll Skúlason helsti vandræðagripurinn í þessu máli öllu saman af því að hann gerði ekkert þegar hann var rektor. Ég held að það sem valdi mestum urgi sé hve langan tíma þetta hafi allt saman tekið. Það hefði komið sér best fyrir Hannes að ljúka þessu fljótt af.
Ég get engan veginn tekið undir þau orð félaga Arngríms í kommentum í annarri færslu að ævisaga sé aldrei fræðirit. Sjálfsævisaga er ekki fræðirit. Ævisaga byggð á viðtölum er ekki fræðirit. En margar ævisögur eru einmitt fræðirit og mig grunar að það hafi verið upphaflegur tilgangur Hannesar. Mig minnir að hann hafi haldið fyrirlestur um efnið á einhverju þinginu í Háskólanum sem gefur það sterklega til kynna. Það væri náttúrulega sérstaklega áhugavert að vita hvort að hann hafi fengið einhver rannsóknarstig út á þessi. Eða þá styrki.
En hins vegar skiptir það ekki öllu máli hvort um fræðirit sé að ræða. Háskólakennarar hafa skyldum að gegna gagnvart sínum skóla. Háskólinn verður að bregðast við með einhverjum hætti. Ég held að það væri rétt að senda málið til siðanefndar og það hefði átt að gera fyrir löngu síðan. Ég veit ekki hvað kemur til greina. Brottvikning hefur verið nefnd en Gísli Gunnars segir hana ekki geta átt við. Stöðulækkun hugsanlega. Mig grunar að áminning ein og sér þætti of væg refsing.