Ólafur Teitur, Vefþjóðviljinn, Bush og Gore

Ég hefði væntanlega ekki lesið þennan pistill á Vefþjóðviljanum nema af því að Mundi vísaði á hann. Hann benti á að saga úr pistli Ólafs Teits sem þarna er vitnað í er ósönn. Al Gore átti semsagt að hafa bent á styttur Benjamin Franklin og George Washington og spurt hverjir þetta væru. Ólafur Teitur var að bera þessa sögu við raunverulegan atburð frá því að Bush var í framboði. Þar var Bush spurður hverjir væru leiðtogar Tævan, Téténíu, Indlands og Pakistan. Hann fékk eitt stig af fjórum mögulegum.

Þegar ég las mér aðeins til um þetta þá vakti fleira athygli hjá mér við framsetninguna hjá Ólafi Teit. Í fyrsta lagi segir hann að talar hann eins og málið hafi snúist um „að þekkja ekki leiðtoga Téténíu og Tævans!“. Þar gefur Ólafur í skyn að Bush hafi þekkt annað hvort leiðtoga Indlands eða Pakistans. Það hefði nú verið rökréttast enda voru þær þjóðir mikið í sviðsljóðinu á þessum tíma (valdarán, kosningar, landamæraerjur, kjarnorkuvopnatilraunir). En Bush þekkti einmitt ekki nöfn þeirra heldur leiðtoga Tævan. Ólafur Teitur gerir líka mikið úr því að Al Gore hafi sagt að hann þekkti nöfn allra þessara manna og gefur í skyn að það sé ósatt. En hvað í ósköpunum er skrýtið við það að varaforseti Bandaríkjanna sé ákaflega vel að sér í nöfnum þjóðarleiðtoga? Starf hans snerist væntanlega að miklu leyti um að vita svona hluti.

Það er kannski tímabært að lesa þessar bækur Ólafs Teits um fjölmiðla og sjá hvort fleira undarlegt sé að finna þar. Þetta er allavega í meira lagi vandræðalegt fyrir mann sem var í því að reyna að gagnrýna slæleg vinnubrögð og skort á hlutleysi hjá fjölmiðlum.