Staksteinaleg rökleysa í 24 stundum

Ég er búinn að taka aktívan þátt í umræðum um skólagjöld á blogginu hans Egils. Ég ætti kannski að taka rök mín saman í heildstæða grein en ekki núna.

Í dag er vísað í þessa umræðu í 24 stundum og ritstjórinn þar reynir að sýna fram á að hann er góður kostur sem næsti ritstjóri Moggans, svona rökleysa ætti nefnilega helst aldrei að sjást fyrir utan Staksteina. Hann reynir semsagt að ýja að því að það séu tengsl milli þess að svokallaðir einkaháskólar fóru af stað með sín skólagjöld og að háskólastúdentum fjölgar. Þetta eiga að vera rök gegn þeirri staðhæfingu að fátækara fólk fari síður í nám þar sem eru skólagjöld.

Nú ætti það að vera augljóst að fjölbreytni í námi eins og sér getur virkað til að fjölga háskólastúdentum og það hefur enginn haldið því fram að allir eða einu sinni meirihluti láti skólagjöld stoppa sig þegar kemur að því að halda áfram í námi. Það er minnihlutinn sem við höfum áhyggjur af.

En það er rétt hjá Ólafi að það hefur orðið fjölgun á háskólastúdentum. Hans ástæða fyrir því er greinilega vitlaus. Hvað veldur þá?
Ég er nokkuð viss um að tölurnar sýna fram á að mesta fjölgunin kom í kjölfar þess að hætt var að skerða námslán vegna tekna maka. Þetta var í kjölfar öryrkjadómsins svokallaða. Sá hópur sem nýtti sér þetta einna helst voru konur sem höfðu margar hverjar ekki tækifæri til að mennta sig þegar þær voru yngri. Meðal annars voru þær með mér í bókasafns- og upplýsingafræðinni.

Þarna er semsagt hópur sem að nýtti tækifærið til að mennta sig um leið og fjárhagurinn leyfði það. Ég get ekki séð þetta sem annað en sönnun þess að fjöldi manns lætur kostnað stöðva sig þegar kemur að háskólanámi þvert á það sem haldið hefur verið fram. Þetta sýnir líka endanlega hve röksemdafærsla ritstjórans var illa ígrunduð.