Fornleifafræðingar hafa fundið höll undir yngri höll í Eþíópíu. Ég hef leitað að einhverju sem er komið beint frá þeim en hef ekki fundið en fjölmargar fréttasíður segja þá telja sig hafa fundið höll drottningarinnar í Saba. Engin fréttasíðan segir neitt um hvað það sé nákvæmlega við höllina sem bendir til þess annað en þjóðsögur. Það er ekkert minnst á neinar vísbendingar á staðnum. Síðan er vitnað í sögur um Sáttmálsörkina og Salómon konung eins og að um áreiðanlegar heimildir sé að ræða. Í Netmogganum segir meira að segja að þess sé getið í biblíunni að Salómon og drottningin hafi gifst en þar stendur í raun bara að hún hafi heimsótt hann.
Þegar minjar um tengdar þessari drottningu, sem gæti raunar hugsanlega kannski hafa verið til, fundust síðast þá var það í Jemen. Hún hefur semsagt flutt í millitíðinni.
Ætli þessir fornleifafræðingar fái fjármagn í samræmi við þá fjölmiðlaumfjöllun sem þeir geta vakið? Og ætli fréttaþýðendum Moggans detti aldrei í hug að ástunda smá gagnrýna hugsun eða kannski bara að gúggla smávegis?