Kannski að ég geri bara copy/paste af síðunni hans Sigga:
Semsagt, ég hef nákvæmlega sömu sögu að segja og Siggi. Þar sem ég þarf að hanga heima þá væri gott ef ég gæti skrifað eitthvað í greininni minni/erindinu mínu/ritgerðinni minni en ég er svo einbeitingarlaus að ég get það ekki. Ég næ ekki heldur að einbeita mér að lestri. Ég næ ekki einu sinni að sofa út! Það eina sem ég get gert er að glápa á sjónvarp og ég er búinn með allt áhugavert held ég. Er byrjaður að horfa á gamla Simpsons þætti yfir daginn.
Ég er búinn missa þrjá daga úr vinnu, badminton tíma og Terry-skriftum. Ekki hressandi. Ég verð líklega enn frá vinnu á morgun og þarf því að redda mér læknisvottorði. Ég verð að játa að ég veit ekki hvernig það virkar. Ég efast um að læknir geti nokkuð gert fyrir mig annað en að segja mér að taka því rólega. Ég hef því lítið annað til hans að gera en að biðja um vottorðið og ég fatta ekki hvernig það virkar. Fer ég til hans á morgun og fæ staðfest að ég sé veikur þá og fæ þá opið vottorð um veikindi mín eins lengi og þau standa? Eða þarf ég að fara til hans þegar ég er orðinn hress til að fá vottað að veikindum mínum sé lokið (eins og Ólafur F.)? Ég man ekki eftir að hafa fengið vottorð fyrir veikindum í mjög langan tíma.
Þegar ég var í tannréttingum 13 ára gamall var ég hins vegar mjög góður í að nýta mér vottorð. Mér fannst óþarfi að heimsóknirnar til pabba Manga væru á kostnað frítíma míns þannig að þær voru almennt bókaðar þegar ég átti að vera í sundi eða líffræði. Samt var ég bara ánægður að þetta tók mettíma og ég fékk mína glæsilegu tannuppröðun á cirka átta mánuðum. Það held ég að hafi slegið út systur mína sem var 11 mánuði með spangir.
En þetta er bara boring og þessi færsla er það vitrænasta sem hefur komið frá mér í vikunni… Kannski þýðir það að mér sé að skána eða er þetta bara þessi almenni kvöldhressleiki sem mér finnst alltaf einkenna veikindi. Slappastur að morgni. Skárri seinnipartinn. Það að tala um kvöldhressleika er náttúrulega villandi þar sem maður er aðallega hress í samanburði við hvernig manni líður á öðrum tímum dagsins. Er ég einn um þetta?
Ég er reyndar búinn að gera meira en að kópera færsluna hans Sigga og ég er búinn að kvarta mikið meira en hann þannig að ég þagna núna (en þið vitið ekki hvort ég hafi ekki bara bætt við meira væli hérna að ofan eftir að ég skrifaði þetta). Búinn.