Eygló var svo góð að skutla okkur Júlíönu út á flugvöll í morgun. Þar hittum við Terry og Tobbu í röðinni. Það gerðist svo sem ekkert markvert á flugstöðinni og flugferðin út var merkilega góð. Á Stansted þurftum við að bíða ótrúlega lengi eftir nýjum gömlum afgreiðslumanni sem var að tékka inn í Derry flugið. Ég rétt hafði tíma til að fá mér hið hefðbundna Ponti’s lasagna áður en ég fór í gegnum öryggisgæsluna. Ég skoðaði ekkert í fríhöfninni og var eiginlega glaðastur þegar ég var sestur við hliðið.
Að vanda var skemmtilegt að reyna að drífa sig inn í flugvélina og ná góðu sæti. Við settumst fyrst aftast en vorum síðan hrakin þaðan af flugfreyju. Við enduðum hins vegar á því að setjast hjá neyðarútgangi og fengum ótrúlegt fótarými. Það flug gekk bara vel og Júlíana hafði mjög gaman af þeirri sérstöku reynslu sem RyanAir býður upp á. Það var ákaflega spes að þrátt fyrir að það hafi tekið hellingstíma fyrir flugvélina að keyra um flugvöllinn þá var flugstöðin sjálf minni en á Akureyrarvelli. Það gekk fljótt að koma sér þar í gegn en þegar út var komið tók það hálftíma eða svo að fá taxa. Það var ekki vegna þess hve margir voru að bíða heldur af því að það voru engir taxar.
Það var ekki langur túr inn í stúdentaþorpið Duncreggan. Við fengum herbergislykla og skildumst síðan að. Ég fór í sturtu og lagði mig smá. Við hittumst um klukkan sjö og röltum inn í bæ til að fá okkur að borða. Það var merkilega lítið opið. Í lýðveldinu er ekkert hægt að sjá að það sé hugsað um hvíldardaginn en hér er allt önnur staða. Við fundum samt ágætan stað og ég fékk gott Chili Con Carne en of smáan skammt. Matur Tobbu og Júlíönu var ekkert spes en Terry var glaður með bresku bökuna sína. Ég sagði þeim frá kenningu mína um matreiðsluhæfileika Íra og að maður ætti helst að fá að kíkja í eldhús á veitingastöðum til að tryggja að þar væri innflytjandi.
Terry sýndi okkur síðan aðeins borgina. Við gengum um borgarmúrinn. Það var mjög áhugavert að sjá Bogside sem er hverfi kaþólikka. Í lýðveldinu sá maður nær aldrei írska fánann en þarna voru allt að tíu slíkir sjáanlegir. Þarna voru líka veggmyndir en ég sá bara eina sem var ekki hluti af „opinberu“ minningarseríunni um „vandræðin“. Síðan sáum við þar sem mótmælendurnir eru girtir inni í sínu hverfi og The Apprentices’ House sem er með rimla fyrir gluggum og málningaslettum á veggjum. Það er semsagt miðstöð mótmælenda og í sögulegu samhengi mjög táknrænt. Þegar við fórum niður að jaðri Bogside reyndi ég líka að myndblogga. „You are now entering Free Derry“ stendur á því sem virðist vera húsgafl þó húsið sé horfið. Þetta er óraunverulegt að sjá allt saman.
Á leiðinni heim settumst við inn á krá í smá tíma. Komum síðan við í Centra og keyptum aðeins í matinn. Bömmerinn er að þeir virðast ekki hafa sama úrvalið í samlokubarnum þar og í Cork þannig að ég get ekki fengið mér nostalgíu langloku. Ég er hins vegar með Minstrels, kóka og lítinn Walkers flögupoka sem er næstum jafn gott minningatripp. Ég er núna bara í herberginu mínu, óákveðinn hvað ég geri fyrir svefninn.
23:08 15. júní að írskum tíma í Duncreggan stúdentaþorpinu.