Í morgun snobbaði ég fyrir Edinborgurum og fór að borða með Gary, Neil og Kristni. Það bættist einn Frakki við sem ég man ekki alveg hvað heitir. Á leiðini hittum við Valdimar sem ég hafði ekki hitt síðan í september. Það er fyndið hvað persónuleiki hans er öðruvísi þegar hann talar ensku með sínum kaliforníska hreim. Ég fór eftir morgunmat og reddaði netsambandi en var hneykslaður að ég hefði ekki fengið nein áhugaverð email.
Ég fór á panel um menningararf og pólitík sem var mjög troðinn. Valdimar og Carina sátu á gólfinu þar. Brúin í Mostar, gamlar herstöðvar á Gotlandi, Þýskalandi og Eistlandi og síðan eitthvað um þjóðfræði í Slóvakíu. Eftir mat fór ég á það sem ég hélt að væri svona framhaldsnemaspjall en var panell. Ég ákvað að vera samt þar vegna þess að ég og Frakkinn vorum einu áhorfendurnir. Enginn var að stjórna þarna og hinn fyrirlesarinn mætti ekki. Þetta var líka ljómandi áhugavert.
Við fórum síðan og redduðum Júlíönu simkorti. Mér fannst hún brött að versla við Orange. Ég skóflaði síðan í mig vondri kartöflu áður en við áttuðum okkur á að við höfðum auka hálftíma. Í Guildhall eru stóru fyrirlesararnir. Sá fyrri í dag var meira en lítið skrýtinn. Kona frá Kyrgistan. Ég horfði á hana og velti fyrir mér hvort það væri bara ég sem var svona fordómafullur að telja þetta meira og minna algjort hjá henni. Ég var mjög feginn þegar þetta var rætt seinna um kvöldið og það kom í ljós að aðrir voru alveg sammála.
Seinni fyrirlesarinn var Pertti Anttonen sem ég held sé stafað svona. Hann er nokkuð merkilegur fræðimaður en mér fannst finnski hreimurinn hans ekki nógu athyglisvekjandi. Líklega betra að lesa hann. Ég hitti hann reyndar fyrr um daginn og var glaður með það. Mér þótti líka stórfyndin sagan hans um baráttu finnskra kirkna um bein dýrlings.
Við fórum á nokkuð góðan kínverskan stað eftir fyrirlestrana. Svipaður hópur og í gær. Júlíana fékk gerviblóm á diskinn sinn sem hún smakkaði og úrskurðaði óætt. Valdimar trúði því ekki og tók góðan bita af plastinu.
Sumir vildu horfa á fótbolta og við fórum enn og aftur á sömu kránna þar sem ég spjallaði við Clionu og Júlíönu. Ég endaði með að gleyma pokanum með ráðstefnugögnunum þarna en Kristinn hirti það vonandi með sér heim.
Ég gleymdi að minnast á í gær og Gary hélt því fram að ég væri með Corkhreim. Ég efast svolítið um það en ég hefði átt að taka upp enskuna mína áður en ég fór til Írlands síðasta haust til að hafa samanburð. Þá hafði Terry reyndar haldið því fram að hreimurinn minn væri frekar breskur.
Ég er núna búinn að eyða klukkutíma í að klippa af fyrirlestrinum mínum og lesa hann aftur og aftur til að tímamæla. Ég vona að hann sé kominn í viðráðanlegt form þó ég sé hugsanlega að taka tvær mínútur af fyrirspurnartíma mínum.
Í Duncreggan stúdentaþorpinu klukkan 00:07 að írskum tíma 18. júní þó enn sé þjóðhátíð á Íslandi.