Í gær gleymdi ég að minnast á ísbjarnarumræðuna. Það var mikið fjör að spjalla um það við kvöldverðarborðið. Annars er ég alveg bleh. Í morgun byrjaði ég á því að fara á bókasafnið til að tékka póstinn minn og setja inn ferðasögu.
Ég hafði valið panel fyrir daginn sem var um ímyndunaraflið og stjórnað af Orvar Longren og Billy Ehn. Það var margt áhugavert þar þó síðasti ræðumaðurinn sem ég hafði í raun mestan áhuga á slátraði fyrirlestrinum með slæmri ensku. Held ég sendi henni email til að spyrja hvenær greinin birtist.
Í hádeginu reddaði Júlíana mér prentkorti og ég er því kominn með fyrirlesturinn minn útprentaðan. Eftir slæmu enskuna fór ég á framhaldsnemahitting sem eiginlega enginn mætti á og ég var sá eini sem var bara MA-nemi. Ég veit reyndar að hjá okkur er MA-námið mun harðara en annars staðar, ekki bara snöggur sprettur fyrir doktor, samt var ég með smá minnimáttarkennd.
Ég rölti niður í bæ með Júlíönu og finnskum stelpum sem voru þarna og síðan fann ég staðinn sem ég tala á á morgun. Hann er alveg langt frá háskólasvæðinu og ég hef verulegar áhyggjur af mætingu. Ég fékk mér kartöflu á kaffihúsi þar sem einn Íri byrjaði að reyna við Júlíönu þrátt fyrir að ég sæti þarna og hefði alveg eins getað verið kærasti. Við kláruðum okkur fljótt af þarna og flýtum okkur fyrir næsta horn þar sem dúfa reyndi að ráðast á mig. Sem betur fer hef ég matrixlegt viðbrögð og komst undan. Ég æmti samt aðeins.
Fyrirlestrarnir í Guildhall voru ekkert rosalega eftirminnilegir en sá hjá Reginu var furðulegur af því að hún spilaði einhver lög undir. Eftir það var aðalfundur SIEF þar sem Valdimar fór í stjórn. Reyndar stökk einn Norðmaður fram þegar rætt var um stjórnarframboð og tók skýrt fram að það mætti ekki segja síf heldur síeff. Aðeins brot á fundarsköpum.
Eftir að þetta kláraðist fórum við í mat með mörgum af þeim sömu en nokkrum nýjum. Þar á eftir enduðum við á krá með lifandi tónlist. Spjölluðum mikið áður en við heyrðum eistneska þjóðfræðinga syngja þjóðlög. Við Íslendingarnir gátum ekki verið minni menn og sungum líka þó við hefðum ekkert í fegurð eistneska söngsins.
Ég uppgötvaði þarna að ég væri búinn að týna mp3 spilaranum mínum þar sem fyrirlesturinn minn var. Sem betur fer lét Cliona mig hafa nýjan og ég redda mér þannig. Við löbbuðum heim og ég spjallaði við skoska stelpu, hugsanlega frá Hjaltlandseyjum, um tónlist. Hún þekkir aðeins til Færeyja og ég var að segja henni frá Tý.
Enníhú. Það er ekki gott að syngja fram á nótt kvöldið fyrir fyrsta fyrirlesturinn á stórri ráðstefnu.
2:42 að írskum tíma í Duncreggan stúdentaþorpinu þann 19. júní 2008