Í gær var ég frekar þreyttur og ákvað að fara ekki í ferðina til Donnegal sem var í dag. Reyndar líka af því að Júlíana hafði ekki fengið miða. Ég vaknaði snemma til að reyna að selja miðann minn en það gekk ekki. Ég reyndi að selja Ungverja þetta á hálfvirði en það fór fyrir lítið þegar hún fékk hvorteðer að fara af því að sætið mitt var laust. Ég hefði getað verið fífl og sagt að hún mætti ekki fá sætið mitt en ég er bara ekki þannig innrættur. Það hefði samt verið gott fyrir veskið.
Ég fór þá aftur heim að sofa. Það gekk illa og um ellefu leytið fór brunakerfið af stað. Ítrekað. Ég fór fram og mér var sagt að hafa ekki áhyggjur, þetta væri bara æfing. Ég gafst upp á svefni. Hringdi í Júlíönu og við enduðum með að rölta niður í bæ. Þar hittum við engan en komumst yfir í Bogside aftur og skoðuðum dýpra. Veggmynd sem ég hélt að væri í viðgerð þegar ég fór þarna síðast um var greinilega bara verið að mála og tilbúin þegar við komum þarna. Þarna voru Móðir Teresa, Mandela, Martin Luther King og happadrættisdragarinn John Hume. Súrt maður. Við komum þarna við í búð til að kaupa batterí en fengum óvenju heiðarlega konu sem sagði að Panasonic væri rubbish og við ættum bara að fara í næstu sjoppu. Búð heiðarlegu konunnar virtist reyndar selja aðallega eldivið.
Ég lenti í pirringi þegar ég fór að taka inn greinina mína sem Terry hafði yfirfarið. Ég þurfti að fara fram og til baka af því að ég hafði gleymt minnislyklinum/mp3 spilaranum. Já, hann kom semsagt í leitirnar í gær eftir fyrirlesturinn. Ég kíkti aðeins á athugasemdir Terrys og sofnaði síðan aðeins en um sexleytið hringdi Júlíana í mig og sagði að hún og Kristinn væru á krá niðrí í bæ.
Ég hoppaði og skoppaði af stað, vonlaus um að sofna en vongóður um mat. Einhvern vegin endaði þetta með því við eyddum fleiri klukkutímum í að horfa á fótbolta með Neil og Gary á The Claredon. Ég fékk Kristinn með mér í plott um að þykjast vera Króatar í von um að fá ókeypis í glas. Við öskruðum á sjónvarpið á íslensku og þegar Króatía skoraði að því er virtist sigurmarkið í framlengingu sungum við saman Ísland ögrum skorið. En við fengum engin boð um drykki og Tyrkir skoruðu síðan og eyðilögðu kvöldið fyrir okkur Króötum í vítaspyrnukeppni.
Við skyldum við Neil um ellefuleytið og fórum fjögur að fá okkur að borða. Það er lítið úrval á þessum tíma kvölds þannig að við keyptum okkur ákaflega undarlegan mat. Ég fékk Chicken balls sem reyndist vera djúpsteiktur kjúklingur með brúnsósu, frönskum og hrísgrjónum. Það er greinilega fölsk klemma þegar maður er látinn velja milli franskra kartaflna og hrísgrjóna sem meðlæti því það er hægt að hrúga þessu öllu í frauðplastsbox. Undarlegast var hve vel þetta smakkaðist þar sem við sátum á bekk út á torgi í Derry.
Við hoppuðum síðan inn á næstu krá sem var safnaði greinilega fánum og táknum undirokaðra þjóða. Mesta athygli vakti sænski fáninn sem ég sagði að hlyti að vera fáni Hjaltlandseyja eða eitthvað. En þarna voru semsagt Terry og frú ásamt dóttur sinni. Þarna var hávær tónlist og við spjölluðum frameftir. Valdimar kom líka. Þegar við fórum loksins, ég, Valdimar, Júlíana, Kristinn og Gary, þá komu Derrymenn og buðu okkur í partí. Af einhverjum dularfullum ástæðum þáði Kristinn þetta boð fyrir okkar hönd og það var nokkuð erfitt að reyna síðan að koma mönnunum í skilning um að við værum í raun á heimleið. Þetta endaði með að Gary og Kristinn fórnuðu sér fyrir okkur sem þurftum að vakna fyrr. Á leiðinni heim fórum við á kebabstað þar sem ég keypti mér mat bara af því ég vildi kebab. Það var fokkings frábært. Einfalt og gott. Ég hefði átt að borða þarna alla vikuna.
En núna er ég að mestu búinn að undirbúa brottför. Ég vakna um sjöleytið og við hittumst úti rétt eftir það. Við gerum ráð fyrir að Derryflugvöllur bjóði ekki upp á tveggja tíma bið eins og Stansted.
Þreyttur að vanda klukkan 3:18 að írskum tíma í Duncreggan þann 21. júní 2008.