Kjallarafrúin í borgarstjórann?

Það er áhugavert að kona sem stundar það að stinga fjölmiðla til að þurfa ekki að svara spurningum þeirra sé líklega að verða borgarstjóri. Satt best að segja efast ég um að hún nái að heilla nokkurn í stólinum ef hún verður ekki aðeins hugrakkari að mæta fjölmiðlum.

Annars er tilkoma Óskars Bergssonar skondin. Hvað hefur maður lesið mörg blogg Sjálfstæðismanna þar sem hann er kenndur við spillingu. Það er væntanlega gleymt núna. En ætli kjósendur Framsóknarflokksins, eða öllu heldur þeir sem gætu hugsað sér að kjósa hann, verði ánægðir með þetta?
Það er líka áhugavert að þessi væntanlegi meirihluti hefur ekkert mikið meiri stuðning en sá gamli samkvæmt skoðanakönnunum. Hugsanlega breytist það eitthvað þegar Ólafur hættir en varla mikið. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur ringulreiðar og þetta er bara eitt skref í viðbót. Þau misstu meirihlutann með að stinga hvert annað og Binga í bakið. Þau náðu meirihlutanum aftur með því að fá Ólaf til að stinga félaga sinn í bakið og þau ætla nú að stinga Ólaf í bakið, sem þau gerðu reyndar líka rétt eftir kosningar. Þetta er ekki traustvekjandi hópur.

Fjölmiðlar munu vonandi hafa vit á því að endursýna öll myndskeiðin af Sjálfstæðismönnum að tala um hve frábær þessi meirihluti sé frá því í byrjun árs. Hefur Ólafur farið eitthvað út fyrir samninginn sem gerður var þá? Er vandamálið ekki bara að Sjálfstæðisflokkurinn var bara að hugsa um að komast til valda en ekki til framtíðar? Flestallir sem horfðu á þetta gerast áttuðu sig á þessi meirihluti væri svo brotthættur að hann ætti sér ekki neinar réttlætingar.

Það hvort að Ólafur nær að snúa sér útúr þessu eins og Bingi gerði þegar hann áttaði sig á að meirihlutinn gæti ekki lifað lengur er áhugaverð pæling. Ólafur í frí er ein leið en þá þyrfti Óskar Bergs að hugsa um langtímaávinning en ekki skammtíma. En Framsóknarmenn eru ekki frægir fyrir að treysta á slíkt.

Kannski væri best fyrir mig að reyna bara að einbeita mér að því hvað er gott að þetta fólk afhjúpi sig í stað þess að hugsa um hvað þetta er að fara illa með borgina og hvað öll þessi vitleysa kostar okkur borgarbúa.