Fyrir hvern?

Kannski er búið að blogga nógu mikið um þetta en ég verð að hvetja fólk til að hugsa um það fyrir hvern þessi sýning var í gær. Var hún fyrir handboltalandsliðið? Var hún fyrir þá sem vildu fagna handboltalandsliðinu? Eða var hún fyrir stjórnmálamennina sem vildu græða eitthvað sjálfur á árangri handboltalandsliðsins? Ég held að svarið sé augljóst.

Ef stjórnmálamennirnir hefðu viljað hylla landsliðið þá hefðu þeir getað staðið í mannfjöldanum. Í staðinn var öllum ráðherrum sem náðist í smalað upp á svið í von um að það mynduðust í höfði áhorfenda tengsl milli stjórnmálamannanna og árangurs landsliðsins. Það er allavega ekki von til þess að þessi ráðherrahópur fái klapp fyrir árangur sinn við stjórn landsins.

Guðlaugur Þór stóð sérstaklega út úr hópnum sem maðurinn sem er ekki að semja við ljósmæður og neitar að vísa fram kvittun fyrir laxveiðiferð. Nærvera hans vakti óneitanlega upp hugrenningatengsl milli kjarabaráttu ljósmæðra og kostnaðinn við fagnaðarlætin öllsömul. Samdrátturinn hefur áhrif á loforð um að bæta launakjör kvennastétta en ekki þetta.

Það er vonandi að fólk sé of klárt til að falla fyrir sýndarmennskunni og líka að það átti sig á að gagnrýni á sýninguna sé ekki ætluð landsliðinu sem var dregið inn í þetta allt saman.