VG um að vera í og utan ESB

Í morgun biðu mín boð um að ganga í tvo Facebook hópa. Annar mælti með aðild og hinn gegn. Bæði boðin voru frá Vinstri Grænu fólki. Ég afþakkaði bæði boðin. Varðandi Heimssýn get ég ekki komist hjá því að vantreysta félögum sem hafa svona marga hálfvita í forystuliði. Ég get á móti alls ekki gengið inn á þá línu sem virðist í gangi að við verðum að ganga í Evrópusambandið með öllum ráðum. Ef við ætlum að sækja um aðild verðum við að gera það þannig að við getum hætt við ef okkur er ekki boðinn nógu góður samningur. Ef VG samþykkir að sækja um þá þyrfti það að vera á þeirri forsendu að við munum ekki styðja samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu ef hann verður ekki nógu góður.

Ég held hins vegar að það sé mistök að láta Evrópusambandsblaður ná yfirhöndinni í stöðunni. Við þurfum fyrst og fremst vitræn stjórnvöld sem geta tekið til og markað stefnu. Þar treysti ég VG best. Ég fékk engin svör í gær þegar ég bað um tillögur að hugsanlegum meðlimum utanþingsstjórnar og það var það sem ég bjóst við. Stjórnmálakerfið er gallað en við þurfum að lifa með því.