Þegar Guðni tók við sem formaður Framsóknarflokksins þá sýndist mér á öllu að hér væri um bráðabirgðaformann að ræða. Ég held að flestir í flokknum hafi verið á þeirri skoðun. Vandamálið er að Guðni var ekki sammála. Hann hélt að sinn tími væri barasta kominn þó hann væri í raun að renna út. Það virðist hafa valdið töluverðri streitu innanhúss.
Ég skil raunar ekki hver hélt að Guðni ætti sér framtíð í stjórnmálunum. Mér fannst hann stimpla sig endanlega úr leik með bjánalegum framgangi sínum í þætti Sverris Stormskers í sumar. Hann var greinilega ekki að höndla þetta.
Bjálfaskapur Bjarna Harðar eyðilagði náttúrulega endanlega fyrir Guðna. Hann stóð eftir einn og yfirgefinn í þingflokknum, umkringdur Evrópusambandssinnum. Það er erfitt að vera útlagi og formaður á sama tíma. Augljóslega hefði verið virðulegast fyrir manninn að sitja aðeins lengur í stað þess að fara út á Kanarí. En hann hafði það ekki í sér.
Það að Bjarni Harðar hafi ráðlagt Guðna að segja af sér er áhugavert. Draumur Bjarna er augljóslega að Valgerður hverfi líka á braut og væntanlega hefur hann séð afsögn Guðna fyrst og fremst sem leið til að þrýsta á það.
Nú eru einhverjir að láta sig dreyma um að Guðni og Bjarni sameinist í einhverjum nýjum flokk. Ég á voðalega erfitt að sjá endurkomu Bjarna í pólitík. Væntanlegir samstarfsmenn Bjarna þyrftu alltaf að búast við því að hann stingi þá í bakið ef upp koma deilur. Hver vill vinna með manni sem er þekktur fyrir bakstungur?