Ég er þeirrar skoðunar að styrkja eigi eiginfjárstöðu Seðlabankans og stórauka gjaldeyrisvaraforðann. Ég held að það hafi verið ægileg mistök að nota ekki tækifærið meðan það gafst og var mjög gráupplagt að halda gjaldeyriskaupum Seðlabankans áfram. Ég skildi aldrei af hverju þeir hættu þegar við blöstu þær aðstæður sem þá voru og eru enn. Að þeim mun sterkari sem gjaldeyrisvaraforðinn væri og þeim mun sterkari sem Seðlabankinn væri, þeim mun líklegra væri að okkur tækist að fara mjúklega í gegnum þetta að gengisbreytingarnar yrðu vægari en ella o.s.frv. Þó að þar hafi vissulega nokkuð verið að gert, ég viðurkenni það, held ég að menn hefðu þurft bæði fyrr og í miklu myndarlegri mæli að styrkja stöðuna þar.
Hver var ástæða þess að norska krónan hélt velli í gjaldeyrishruninu á Norðurlöndunum í kjölfar bankakreppunnar upp úr 1990? Hún var bara ein. Sú staðreynd að norski Seðlabankinn er óheyrilega sterkur og stendur hátt upp úr í hlutfallslegum samanburði seðlabankanna á Norðurlöndum. Finnski, sænski og danski Seðlabankinn réðu ekkert við ástandið en Norðmenn stóðu það af sér og við sluppum reyndar furðulega vel. Merkilegt nokk. Kannski af því að við áttum þá ríkisbanka sem höfðu þá stöðu að hafa ríkisábyrgð á lánum sínum og ríkið að bakhjarli og sigldu í gegnum bankakreppuna mun mjúklegra en einkavæddu bankarnir annars staðar á Norðurlöndunum gerðu. (Gripið fram í: Er komin bankakreppa?) Nei, hún er ekki komin. Bankar sem höfðu verið einkavæddir árin á undan í Noregi og Svíþjóð enduðu aftur að miklu leyti í eign ríkisins. Ég er ekki að segja þetta vegna þess að ég óttist eða vonist endilega eftir því að þannig fari hjá okkur. Það geri ég ekki. En það sem hefur einu sinni gerst það getur alltaf gerst aftur einhvers staðar annars staðar á hnettinum. Er það ekki?
Það er rétt að taka fram að þetta var sagt fyrir um ári síðan. Það er engu logið um forsjárhyggju Steingríms Joð. Hann barasta ætlaði að bjarga okkur frá bankakreppu þó hún væri ekki einu sinni til staðar!