Ég hjó eftir svolitlu sem mér fannst undarlegt í skoðanakönnun sem er verið að tala um á Smugunni:
Spurt var: „Telur þú að boðskapur mótmæla- og borgararafunda undanfarinna vikna endurspegli viðhorf meirihluta þjóðarinnar?“ og voru eftirtaldir svarmöguleikar gefnir: 1) Já -fundirnir endurspegla viðhorf meirihluta þjóðarinnar; 2) Nei – fundirnir endurspegla ekki viðhorf meirihluta þjóðarinnar; 3) Veit ekki (þ.e. þeir sem tóku ekki afstöðu).
Það sem mér þykir skrýtið er að hér á fólk að svara um viðhorf þjóðarinnar í heild sinni en ekki eigið viðhorf. Í raun er niðurstaðan marklaus því hér gæti bara verið um almennan misskilning að ræða. Ef við vildum vita hvað fólki finnst hefði átt að spyrja það hvort mótmælin og borgarafundirnir endurspegluðu viðhorf þess. Það er alveg makalaust hve oft það gerist að illa hugsaðar og orðaðar spurningar koma fram í skoðanakönnunum. Svo maður tali ekki um netkannanir. Fjölmiðla sem nota svoleiðis ætti að banna.