DV, Hreinn og Björgólfur

Upptakan sem heyrðist í Kastljósinu áðan var áhugaverð. Ég á í raun ákaflega auðvelt með að skilja að Reynir hafi ekki viljað berjast fyrir því að þessi frétt birtist þegar blaðinu er ógnað. Það sem var á herðum hans voru störf allra sem vinna hjá blaðinu. Það sem er mun verra er hvernig ráðist hefur verið á blaðamanninn í dag. Það er svínslegt og óþarfi.

Mér þótti líka áhugavert að heyra Reyni segja að Hreinn Loftsson hafi almennt ekkert verið að æsa sig yfir því hvað væri í blaðinu en þarna hafi hann verið að bregðast við hótunum. Ég gat ekki skilið þetta öðruvísi en að maðurinn sem var að hóta hafi einfaldlega verið Björgólfur Guðmundsson. Hann er kannski ekki jafn heilagur og menn hafa haldið. Þannig að kenningin um vondu Baugsmennina sem eru með nefið niðrí öllu á blöðunum er fallin. En eins og Jón Bjarki sagði er svoleiðis ritskoðun almennt í hausnum á blaðamönnum sjálfum. Menn vita hvaðan launin koma og það er mjög erfitt að glíma við.

Nú er spurning hvort að einhver fjölmiðill sé nógu hugrakkur til að ráða blaðamanninn knáa. Með Jóni Bjarka hlýtur að fylgja ákveðinn stimpill heiðarleika en þora ritstjórar að hafa starfsmann sem er tilbúinn að taka upp samtöl við þá?
Annars eru menn farnir að hvetja til þess að Jón Bjarki verði kosinn hetja ársins hjá DV.

En stóra spurningin er hver framtíð DV sé og þá kannski sérstaklega Reynis Traustasonar. Mér væri ákaflega illa við að missa DV því blaðið hefur staðið sig vel í ýmsu undanfarið.