Þetta er notalegt. Hann fékk léttreyktan KEA lambahrygg en hún smáfugla. Ekki geta þau étið það sama, ónei. Kannski taka þau málamiðlun á svín eitthvert árið en ekki strax.
Ég er hæfur til að gera brúnaðar kartöflur nema að þær eru ekkert óhóflega góðar. Ég hugsa á hverju ári um að hringja í Arnheiði og fá leiðbeiningar en hef ekki enn gert það. Hún gerir sumsé bestu brúnuðu kartöflur allra tíma.
Ég stóðst reyndar einhvern veginn mátið að éta mig svona stútfullann. Hugsanlega hjálpaði tilhugsunin um afgangana. Við gerðumst dugleg og vöskuðum strax mestallt upp.
Jólakortin voru næst. Það eru nokkur ár síðan ég sannfærði Eygló um að það væri svindl að opna kortin fyrren á aðfangadagskvöld. Hún reynir alltaf að giska eftir rithönd en ég er vonlaus í því. Þakka öll kortin.
Ég hringdi síðan til Svíþjóðar og spjallaði við Önnu í þrjú korter.
Pakkarnir voru næstir. Fjögur spil komu upp í allt hjá okkur. Við gáfum hvort öðru spil og íslenskan geisladisk. Hún fékk Norðurlandaútgáfuna af Ticket to Ride en ég fékk Cartegna. Tengdó gáfu mér Kreppuspilið og Hafdís og Mummi gáfu okkur Trans Europa. Ég tel þetta upp til að lokka fólk í jólaspilamennsku.
Frá Dagbjörtu fengum við líklega útpældustu jólagjöf seinni ára. Það sem um ræðir er mynd prentuð á striga sem stendur á trönum. Á myndinni er Trafalgar torg en þar trúlofuðum við Eygló okkur í febrúar síðastliðnum.
Og við fengum fleiri góðar gjafir og þökkum þær allar.
Ísinn er líka búinn og étinn. Laufabrauð og smákökur hafa horfið. Kókið líka.
Þetta er semsagt gott.
Ég óska lesendum mínum nær og fjær, til hægri og vinstri, trúlausum og trúuðum, landsbyggð og höfuðborg, Íslandi og útlöndum, mennskum og geimverum, gleðilegra jóla.