Um þetta leyti í fyrra lenti ég í að deila við einhvern sem hélt því fram að ég teldi sjálfan mig ákaflega róttækan. Það hef ég aldrei haldið. Ég hef ekki haldið að ég væri sérstaklega langt til vinstri (enda þekki ég fólk sem er raunverulega langt til vinstri). Ég held að ég hafi tekið örfá skref til vinstri þegar ég leystist frá Framsóknarvillunni en þau voru ekkert mjög stór (Framsóknarflokkur taldi sig líka reglulega vinstri flokk áður en Halldór Ásgrímsson komst til valda).
Það sem ég held að hafi valdið því að ég virtist vera mjög langt til vinstri var hve þjóðfélagið var firrt. Það þótti svo eðlilegt að vera með vitlausar frjálshyggjuskoðanir að þeir sem efuðust um slíkt virtust klikkaðir öfgamenn. Nú þegar frjálshyggjan hefur verið rotuð, en því miður ekki drepin, færist allt viðmið mörg skref til vinstri. Skoðanir mínar eru hins vegar óbreyttar þó ég teljist núna hófsamur.