Í gær fór ég ekki út að mótmæla. Ástæðan fyrir því er að ég var of reiður til þess. Ef ég er þannig stemmdur að ég get hugsað mér að ráðast á lögregluna á ég ekkert með það að gera að fara út. Ég var heima, lá upp í sófa með Eygló og horfði á Scrubs. Ég held að ég sé búinn að ná mér núna.
Hvers vegna var ég reiður?
Ég fékk piparúða í augun án viðvörunnar þegar ég var að reyna að taka upp video af lögreglunni að sparka í og lemja sitjandi mótmælanda sem sneri við honum baki. Miðað við allar myndir sem eru á ferli er líklegt að lögreglan hafi miðað á mig af því að ég var með tökuvél.
Ég skal endurtaka þetta:
Ég fékk piparúða í augun án viðvörunnar þegar ég var að reyna að taka upp video af lögreglunni að sparka í og lemja sitjandi mótmælanda sem sneri við honum baki. Miðað við allar myndir sem eru á ferli er líklegt að lögreglan hafi miðað á mig af því að ég var með tökuvél.
Frá sjónarhóli lögreglunnar var þetta kannski rétt ákvörðun. Ef ég hefði ekki verið tekinn út þá væri þessi videoskrá núna á YouTube og hefði líklega verið í sjónvarpsfréttum í gær. Lögreglan að sparka í sitjandi mótmælanda sem ekkert er að gera og getur ekkert gert.
Ég hef velt fyrir mér hvað ég hefði gert ef Eygló hefði orðið fyrir svona árás en ekki ég. Þá veit ég ekki hvort ég hefði getið hamið mig með að fara niður í bæ í gærkvöldi. En sem betur fer var hún bara heima.
Palli félagi minn hefur mjög myndræna frásögn af því þegar hann fékk piparúða framan í sig. Engum stóð hætta af Palla.
Annars er gott veganesti að hafa lesið Beinar aðgerðir og borgaraleg óhlýðni sem Siggi Pönk tók saman. Þar koma fram skýrar leiðbeiningar um hvernig skal staðið að aðgerðum. Eftir þá lesningu skilur maður líka betur að maður á ekkert heima í mótmælum ef maður er reiður.
Hér og þar á netinu sé ég bloggarafífl að tala um anarkistana sem ofbeldisfulla. Þetta er þvílíkt kjaftæði. Anarkistarnir standa fyrst og fremst að táknrænum aðgerðum. Þeir stunda borgaralega óhlýðni og þar með hafna þeir ofbeldi. Ef ég ætlaði að halda mótmælum rólegum þá myndi ég raða anarkistunum fyrir framan lögregluna. Sérstaklega ef Siggi Pönk stjórnar aðgerðum þeirra.
Annars mæli ég með umfjöllunina hjá Nei um mótmæli næturinnar. Mín reynsla segir að þeirra útgáfa sé yfirleitt næst sannleikanum þó engin leið sé að vita allt sem er að gerast.