Skýrasta niðurstaða forvalsins í gær er kosning Katrínar Jakobsdóttur í efsta sætið. Hún fékk nærri 80% atkvæða í það sæti sem er stórkostlegur árangur því væntanlega hafa margir af hinum sett hana í næstu sæti fyrir neðan. Hún er óneitanlega leiðtogi flokksins í Reykjavík og mun væntanlega halda ráðherrastól sínum.
Góður árangur Lilju Mósesdóttur kom mér mér ekki beint á óvart en ég hefði ekki heldur getað spáð fyrir honum. Ég vissi bara að þarna var stórt spurningamerki.
Það lá í loftinu að Kolbrún kæmi ekki vel út úr þessu og það gekk eftir. Það að sá þingmaður sem lengst hefur setið skuli lenda í sjötta sæti er alveg skelfilegur árangur. Ég bjóst satt að segja við að hún myndi bara hafna sætinu enda er stór hætta á að hún fái einfaldlega nægilega margar yfirstrikanir til að detta neðar. Vandamálið með Kolbrúnu er fyrst og fremst að hún er ekkert sérstaklega góður talsmaður eigin skoðana. Stundum er vissulega bara snúið út úr því sem hún segir en það skýrir ekki allt. Til dæmis núna kemur hún og talar um að fylgi VG í skoðanakönnunum sé kraftaverk. Kommon. Flokkurinn á einfaldlega mikið meira inni en hann hefur fengið í kosningum og það er óþarfi að þrugla svona.
Á sama hátt fékk Álfheiður slæma útreið, bara ekki alveg jafn slæma.
Stærstu vonbrigðin eru að sjálfssögðu að Auður skuli ekki hafa verið ofar. Vandamáli er held ég fyrst og fremst að hún er ekki nóg þekkt utan kjarnans sem vinnur að starfi flokksins. Mig grunar að þar hafi hún hlotið góða kosningu. En hún verður væntanlega fyrsti varaþingmaður.
Það verður áhugavert að sjá hvernig verður raða á lista í kjördæmunum. Það á eftir að ráða miklu um gengið í kosningum.