Á heimasíðu Borgarahreyfingarinnar stendur:
Vegna áforma Ríkisútvarpsins um að hætta við 10 mínútna gjaldfrjálsan kynningarþátt fyrir framboðin til alþingis sendi Borgarahreyfingin útvarpsstjóra og menntamálaráðherra bréf.
Þetta hljómar illa. RÚV hættir við að bjóða upp á kynningarþætti fyrir framboðin. En þegar skýringin kemur sést að Borgarahreyfingin er að hagræða sannleikanum töluvert:
Aldrei stóð til að þingframboð fengju gjaldfrjálsa kynningu í Sjónvarpinu. Þegar tvö framboð óskuðu eftir slíkri kynningu, kannaði Ríkisútvarpið áhuga allra framboða á slíkri kynningu. Skýrt var tekið fram í tölvubréfi vegna þessa, að kynningar af þessu tagi yrðu einungis settar á dagskrá reyndist áhugi hjá meirihluta framboða.
Borgarahreyfingin hefur semsagt líklega sótt um að fá ókeypis kynningu en var hafnað. Síðan segja þeir að hætt hafi verið við þetta þó aldrei hafi þetta verið nema á hugmyndastiginu. Ég tek fram að mér þætti eðlilegast að hafa svona þætti á RÚV en það réttlætir ekki rangfærslur og hvað þá að kenna Katrínu Jakobsdóttur persónulega um eins og einn frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar gerði. Eina „heiðarlega“ framboðinu virðist ekkert sérstaklega annt um sannleikann.