Píslarvotturinn Ólafur Stephensen

Það er voðalega skrýtið að Ólafur Stephensen eigi að vera einhver píslarvottur í Moggamálinu. Vissulega var hann rekinn af því að nýju eigendurnir töldu hann hafa rangar skoðanir en við megum ekki gleyma því að hann var ráðinn af því að gömlu eigendurnir töldu að hann hefði réttar skoðanir. Hann tók líka, eins og Davíð og Haraldur, óvinsælar ákvarðanir um að reka fólk sem virtust einmitt hafa það helst til saka unnið að hafa rangar skoðanir. Síðan er spurning hvort að hann og Haraldur Johannessen hafi það ekki líka sameiginlegt að hafa grætt á því að vera af réttum ættum.

Ég er því á því að Ólafur Stephensen sé síðasti maðurinn sem maður ætti að vorkenna í þessu máli öllu.

Mér þótti lýsing Höllu á kallinum annars ákaflega skemmtileg:

Ég kvaddi Styrmi með söknuði 2. júní 2008. Við borðuðum köku honum til heiðurs en skáluðum svo fyrir nýja ritstjóranum, Ólafi Stephensen. Hann var ungur og átti að tákna nýja tíma – íhaldssamur prestssonur, fyrrum formaður Heimdallar. Drengurinn sem byrjaði á Morgunblaðinu 19 ára gamall og varð aðstoðarritstjóri 33 ára gamall. Hann pússar gleraugun sín með Morgunblaðinu og hefur alltaf skrifað með zetu, þótt hún hafi verið afnumin áður en hann byrjaði í skóla. Hann var tákn nýja tímans á Morgunblaðinu.