Undanfarið höfum við fylgst með álverði fara upp og niður. Þetta kemur okkur öllum við af því að gáfaða fólkið sem samdi fyrir okkar hönd ákvað að tengja orkuverð við álverð. Ef við ætlum núna að reisa fleiri álver á Íslandi erum við bókstaflega að vinna gegn eigin hag. Fleiri álver þýða meira framboð og þar með lægra verð. Um leið sjáum við að þeim mun betri samning sem álfyrirtæki gera við Íslendinga því mun ódýrara ál geta þau boðið. Lágt álverð er vont fyrir Ísland.
Mér er illskiljanlegt hvernig fólk getur komist að þeirri niðurstöðu að fleiri álver séu góð hugmynd fyrir Ísland. Nú þegar eru hlutfallslega alltof mörg störf sem eru háð markaðsveiflum á áli. Við erum ekki að græða neitt sérstaklega mikið á þeim og hrun á álmarkaði myndi valda hruni á Íslandi.
Um leið hljótum við að sjá að aukaskattar á álframleiðslu gæti orðið til þess að álverð hækki. Það þýðir að slíkir skattar borga sig endalaust fyrir okkur.