Netleysi

Ég hef undanfarin ár verið með adsl tengingu hjá Reiknistofnun Háskólans. Það hefur verið voðalega þægilegt að hafa þannig aðgang að gagngrunnum og slíku.

Í sumar útskrifaðist ég og gerði ráð fyrir að ég þyrfti nú eitthvað að breyta nettengingunni en síðan var ég ráðinn sem stundakennari og bjóst þá við að ég myndi þá fá að halda þessu (svipað og gerðist með vefsvæðið mitt).

Það var síðan á miðvikudagsmorgun sem ég ætlaði að kíkja á netið og sá að það var ekki inni. Mér datt að sjálfssögðu strax í hug að annað hvort væri eitthvað að hjá Reiknistofnun eða að ég hefði misst nettenginguna vegna útskriftar. Ég athugaði póstinn minn í gegnum símann minn og sá enga tilkynningu frá þeim. Þegar ég hafði tíma þá reyndi ég að sjá hvort eitthvað væri að mín megin.

Á fimmtudagsmorgun ákvað ég að hringja í Reiknistofnun og spyrjast fyrir. Þá var mér sagt að lokað hefði verið fyrir mig vegna útskriftar. Ég spurði hvers vegna mér hefði ekki verið send nein tilkynning þá var mér sagt að slíkt hefði verið sent út í kringum útskriftina sjálfa. Ég mundi ekki eftir neinu slíku og þó ég hafi leitað í póstinum mínum eftir á þá hef ég ekkert slíkt fundið.

Það sem pirrar mig er ekki að það hafi verið lokað fyrir mig. Ég hefði alveg eins búist við því strax í júní. Ekkert að því. Það sem pirrar mig er að það hafi ekki verið sendur út póstur þar sem stóð “við erum að fara að loka á þig” eða allavega “við vorum að loka á þig”. Ég eyddi alltof miklum tíma í að eltast við að finna vandamál sem var ekki til staðar.