Desert Islands Discs mómentið mitt

Í síðastliðinni viku hringdi Guðni Már Henningsson í mig og bauð mér í það sem heitir “Áratugalögin” og er hluti af sunnudagsþætti hans. Ég þáði að sjálfsögðu og var þar núna áðan.

Þetta var síðan vika valkvíða. Ég þurfti að velja lag fyrir hvern áratug lífs míns. Ég pældi og pældi. Ég valdi og hætti við og valdi upp á nýtt. Ég ákvað mig ekki endanlega fyrren núna um hádegisbilið.

Mér fannst rétt að nota viðmið Johnny Rotten við val á lögum sem var: “Mér finnst ekkert að því að vera í Sex Pistols og hlusta á The Bee Gees”. Semsagt: Ekki reyna að vera svalur.

Ég þurfti að velja Queen lag og ákvað að það yrði áttunda áratugslagið mitt.  Ég ætlaði að velja The Fairy Fellers Masterstroke en Eygló stakk upp á ’39 sem mér finnst miklu gáfulegra. Ég útskýrði texta lagsins – vonandi rétt. Eðlis- og stjörnufræðingar mega leiðrétta mig (ég hafði reyndar samband við Sigurð Örn til að fá þýðingu á einu hugtaki).

Níunda áratugslagið mitt var Lets Hear it for the Boy með Deniece Williams úr kvikmyndinni Footloose. Ég valdi það af því að ég man eftir að hafa farið á myndina í bíó og að hafa hlustað á tónlistina úr myndinni þegar ég fór að sofa. Ég var lengi að pæla í að taka The Chauffeur með Duran Duran en skipti síðan um skoðun.

Ástæðan var sú að tíunda áratugslagið mitt varð Ordinary World með Duran Duran. Lagið okkar Eyglóar.

Síðasta lagið sem minnstur vafi var um var Ragnarök með Tý. Það er valið bæði af því að mér er þakkað í bæklingnum með samnefndri plötu og af því að það er æðislega flott útfærsla á þema Völuspár með gríðarlegum skilningi á norrænni hetjuímynd.

Þetta var sumsé æðislega gaman. Ég játa að ég hef einmitt nokkrum sinnum hugsað að það væri gaman að fara í svona Desert Island Discs þátt og þarna fékk ég tækifæri til þess.