Vindaloo á Kitchen

Á þriðjudagskvöldið fórum við Eggert á indversk-nepalska staðinn Kitchen. Ég hafði farið þangað áður. Í þetta skiptið var markmið mitt að prufa vindaloo staðarins. Ég fékk fyrstu viðvörun þegar ég pantaði. Það stemmdi líka. Þetta var sterkt. Starfsfólkið horfði líka á mig mjög reglulega að því er virtist til að sjá viðbrögð mín við matnum. Kokkurinn kom líka og bauðst til að gera þetta mildara sem ég afþakkaði. Ég passaði mig á að geyma nanbrauðið eiginlega alveg þar til síðast. Það hjálpaði við að kæla mig niður. Ég fékk líka smakk af matnum hans Eggerts eftir að ég hafði klárað minn mat til að kæla mig aðeins. Það dugði. Eggert fékk líka bita af vindaloo og skipti litum.

En aðalatriðið er að bera þetta saman við það sem ég fékk fyrir norðan á Indian Curry Hut. Í fyrsta lagi grunar mig að þetta á Kitchen hafi verið sterkara. Hins vegar hafði það minni áhrif á mig en það sem ég fékk í Karrískúrnum. Ég svitnaði til dæmis ekki neitt. Þar réði ekki sterkleiki matarins heldur að ég borðaði hraðar. Aðalatriðið var að vindalooið fyrir norðan var töluvert betra. Ég fann til dæmis enga þörf á að borða sem mest af sósunni. En ég held að ég fái mér ekki vindaloo aftur í bráð. Það er auðvelt að drepa sterka bragðið í munninum og hálsinum en áhrifin á aðra hluta meltingarvegsins eru erfiðari.