Ég hef alltaf haldið og held enn að við höfum með þingsályktunartillögu sem var samþykkt fyrir ári tekið ábyrgð á IceSave. Forsætisráðherra Íslands þakkaði Bretum fyrir að borga og máli var hraðað í gegnum þingið. Ég gerði aldrei ráð fyrir að þó önnur ríkisstjórn kæmi þá myndi þetta eitthvað breytast. Reyndar hafði ég rangt fyrir mér af því að niðurstaðan var vissulega skárri en hún leit út fyrir í upphafi. Í dag er ég ásakaður um að vera með eftiráskýringar þegar ég segi þetta en mér hefur aldrei dottið annað í hug.
Stjórnvöld á Íslandi voru líka stórkostlega ábyrg fyrir því hvernig fór. Þau lugu að öllum að staða bankanna væri betri en hún var. Þau leyfðu Landsbankanum að fara í þessi viðskipti. Seðlabankastjóri Íslands kom líka, þó hann og fylgismenn hans hafi gleymt því núna, fram í bresku sjónvarpi og sagði það óhugsandi að bankarnir myndu falla af því að þeir væru svo sterkir og að íslenska ríkið væri svo fjársterkt að það gæti beilað þá út ef það bara vildi. Hvað áttu Hollendingar og Bretar að hugsa þegar þetta er tekið með í reikninginn?