Könnun á Vísi:
Eiga Íslendingar að vera stoltir af starfi íslensku rústabjörgunarsveitarinnar á Haítí?
Já
Nei
Það er rétt að taka fram að ég er ekki týpan til að vera stoltur af árangri Íslendinga. Ég nenni hvorki að horfa á karlahandbolta né kvennafótbolta. Ég tel líka í raun engan mun á því þegar íslenskt lið vinnur landsleik og þegar íslenskt corp í Eve Online vinnur bardaga.
Ég dáist að björgunarsveitarmönnum hvort sem þeir eru íslenskir eða útlendir. Líklega er það af því að þetta er mér svo fjarlægt. Maður þyrfti nefnilega líklega fyrst að vera útivistartýpan til að standa í svoleiðis. Framlag mitt til björgunarsveitana er hverfandi og stolt mitt er eftir því. Það að við Íslendingar í heild séum að eyða einhverjum krónum í þetta þýðir voðalega lítið. Við erum nefnilega almennt afskaplega léleg í þessu og því ekkert vit í að einblína á það litla góða sem við gerum og hunsa það sem við gerum ekki.
Mér finnst ógeðfellt að fréttir af fréttum af íslensku sveitinni er meira áberandi í íslenskum fjölmiðlum en fréttir af hörmungunum sjálfum. Það er líka verulega ógeðfellt að sjá fólk reyna að nota þetta til að bæta ímynd Íslendinga í útlöndum.
Íslendingar eru gjarnir á að væla að það hafi bara verið örfáir menn sem komu Íslandi á hausinn og stofnuðu til skulda í útlöndum. Samt er það þannig að það voru miklu fleiri Íslendingar sem stóðu að því en komu að förinni til Haítí. Er samræmi í þessu?
Meðlimir rústabjörgunarsveitarinnar, aðstandendur og stuðningsmenn geta verið stoltir af starfi þeirra. Við hin getum dáðst að þeim, hrósað þeim og vonandi styrkt þá um þær krónur sem þarf til að þeir geti stundað þetta fórnfúsa starf en það er kjánalegt að finna fyrir stolti bara af því að þeir búa á sama landi og við.
Að lokum tek ég fram að ég veit vel að það eru einhverjir sem munu ná að misskilja þetta þó ég hafi reynt að tala skýrt.