Íslensku vefverðlaunin

Það kostar að tilnefna vefi í Íslensku vefverðlaununum:

Gjaldið fyrir flokk er 7.500 krónur á vefsíðu. Gjaldið fyrir Besta blogg/efnistök/myndefni er 1000 krónur.

Mig minnir að það kosti 10 þúsund krónur að tilnefna bók til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Ef við berum saman hvað það tekur mikla vinnu að dæma eina bók og einn vef þá grunar mig að hið síðarnefnda sé margfalt fljótlegra. Ég held satt best að segja að það þurfi nú yfirleitt ekki meira en í mesta lagi fimm mínútna vinnu til þess að sjá hvort vefur geti yfirhöfuð komið til greina til slíkra verðlauna. Í sumum tilfellum þarf bara að opna þá til að segja nei. Bækur eru allt öðruvísi enda ekki um hönnun að ræða. Ég get kannski gútterað að það sé hægt kannski að dæma bók úr leik eftir 50 blaðsíður en það er þá í undantekningatilfellum.

Ég sé ekki neina ástæðu fyrir þessu gjaldi aðra en a) að það sé verið að reyna að takmarka tilnefningar eða b) að hérna sé verið að fjármagna Samtök vefiðnarins.

Ég verð líka að játa að ég skil ekki beint hvernig þessi bloggflokkur á að virka: Besti blog/efnistök/myndefni. Fyrir utan undarlegt kyn og flogkennda stafsetningu þá skil ég þetta bara ekki. Eru þetta þrír flokkar í einu? Á að verðlauna annars vegar blogg fyrir myndræna þáttinn og hins vegar efnistök? Ég skil ekki.