Skrökva – 4-4-1 – Nostalgía

Fjölnir og Arndís fengu þá dásamlegu hugmynd að hafa Háskólalistahitting á kosningavöku Skrökvu. Það var nokkuð vel heppnað og dáltið af kjarnafólki mætti þá það hafi tilfinnanlega vantað fólk eins Frey og Ella. Ég tók með gömul Háskólalistamerki sem höfðu verið á og í skrifborðinu mínu síðan við duttum út á sínum tíma. Við fengum bandið til að taka lagið Stuck in the Middle og komumst í mikið stuð. Síðan heilsaði ég snöggt upp á annan mann á lista Skrökvu sem heitir Viktor Orri. Ég kynnti okkur fyrir honum, bar honum kveðju okkar og gaf honum merki. Það sem gerðist næst kom mér á óvart. Það hópuðust til okkar Skrökvuliðar og meðal annars einn nemandi minn frá því í fyrra. Þau voru glöð að fá gömul Háskólalistamerki og virtust þekkja sögu okkar ágætlega. Þetta var eins og maður væri gömul stríðshetja.

Kosningarnar voru með öðru sniði en áður og var kosið rafrænt. Það var hins vegar ákveðið að gera úrslit kunngjörð klukkan ellefu. Þegar á leið fann ég fyrir gömul taugaóróleika sem fylgdi þessu hér áður fyrr. Rétt eftir ellefu sá maður að aðalfólkið í Skrökvu var að koma upp að sviðinu. Ég hlustaði á tölurnar og reyndi að reikna út. Vaka með um 2500, Röskva með ríflega 2200 og Skrökva með um 700. Ég var eiginlega búinn að sjá þetta út en síðan var sagt að þetta hefði farið 4-4-1. Skrökva er með oddamann alveg eins og fór í mínum fyrstu kosningum 2005. Þetta þýðir í raun að Skrökva er með 2 menn, Vaka 9 og Röskva 9 (af því að þetta er heimskulegasta kosningakerfi í heimi).

Háskólalistaborðið gladdist ógurlega vitandi að það þyrfti ekki að standa í þeirri vinnu sem bíður Skrökvuliða. Fyrir þremur árum dó Háskólalistinn á planinu við gamla Stúdentakjallarann sem síðan dó líka. Við gerðum hann aldrei upp. Ég veit ekki hvað olli. Líklega vorum við bara orðin svona þreytt á þessu öllu. Mér líður smá eins og uppgjörið hafi orðið í kvöld. Nýtt fólk hefur tekið við kyndlinum. Það mun vonandi taka eftir því sem við gerðum vel og einnig því sem misfórst hjá okkur. En þetta er góð tilfinning. Þetta var mjög fín afmælisgjöf.

Réttari tölur:
Úrslit kosninga til Stúdentaráðs liggja fyrir og ljóst er að meirihlutinn féll. Röskva fékk 2263 atkvæði og fjóra menn kjörna. Vaka fékk 2424 atkvæði og fjóra menn kjörna. Skrökva fékk 745 atkvæði og 1 mann kjörinn.

Í kosningu til Háskólaráðs fékk Röskva 2272 atkvæði, eða 50,04% en Vaka fékk 2268 atkvæði eða 49,96%. Á úrslitunum sést að stærri fylkingarnar tvær voru mjög jafnar.

Kosningaþátttakan var 39,5% eða 5% meiri en í fyrra. Kosningarnar í ár voru rafrænar.