Þverpólitík, samviska og liðakeppni

Ég er mikill talsmaður þess að þingmenn séu frjálsir sinna skoðanna og geti greitt atkvæði eftir samvisku sinni. Maður tekur samt eftir ákveðnum göllum í þessu kerfi þegar það er einungis ástundað af sumum flokkum.

Segjum að mál X njóti stuðnings 40 þingmanna á Alþingi. Af þessum 40 eru 30 í stjórn og 10 í stjórnarandstöðu. Í heild eru 34 stjórnarþingmenn og 29 stjórnarandstæðingar. Ef allir kjósa eftir samvisku sinni þá er allt í góðu lagi. Mál sem njóta meirihluta eru samþykkt eins og vera ber. Segjum nú að stjórnarþingmenn, sem gætu til dæmis allir tilheyrt sama flokki, kjósi eftir sannfæringu sinni en stjórnarandstæðingar eftir flokkslínum. Þá fellur mál X þó það sé í raun stuðningur fyrir því. Kerfið virkar ekki. Af hverju?
Markmið stjórnarandstæðinga sem kjósa gegn skoðun sinni er að fella ríkisstjórnina. Markmið stjórnarþingmenn sem kjósa gegn stjórninni er hins vegar fögur hugsjón. Þeir eru hins vegar í þeirri stöðu að þeirra fagra hugsjón er menguð af því að pólitískir andstæðingar þeirra eru að nota sér þær.

Þetta er ekki öfundsverð staða fyrir stjórnarþingmenn. Þeir eru fyrst og fremst fórnarlömb gallaðs kerfis. Þeir búa samt í raunveruleikanum og geta ekki bara hunsað hann. Ef þeir sjálfir falla úr ríkisstjórn þá eru töluverðar líkur á að það myndist ríkisstjórn sem kemur máli X í gegn fljótt og örugglega. Um leið myndu þeir missa það tækifæri sem aðild að ríkisstjórn færir þeim til að koma sínum málum í gegn. Þá geta þeir áfram haft fagra hugsjón í friði þar sem hún verður væntanlega jörðuð.

Vonandi verður okkar stjórnmálalíf nógu þroskað til þess að víglínur flokkakerfisins hætti að eyðileggja út frá sér en sá tími er ekki runninn upp. Það er gott að berjast fyrir sínum hugsjónum en stundum verður maður að átta sig á því að það er bara verið að spila með mann.