Sigmundur Ernir útrásarklappstýra

Við Eygló stöndum í smá framkvæmdum hérna heima og þegar við vorum að færa til skáp fundum við Fréttablaðið frá 24. júlí 2005 (rétt áður en við fluttum hingað). Eygló rakst á skemmtilega grein sem mér sýnist hvergi vera þægilega aðgengileg á netinu. Hún er eftir mann sem komst á einhvern óskiljanlegan hátt á þing í síðustu kosningum. Væntanlega hefðu einhverjir fleiri efast um skynsemi hans ef þeir hefðu lesið þetta. Ég vek athygli á skemmtilegustu pörtunum með leturbreytingum.

Stóra Kaupmannahöfnin
Nýleg samantekt Fréttablaðsins á kaupum íslenskra athafnamanna á fyrirtækjum í útlöndum hefur vakið athygli enda er engin smámynt að skipta um hendur þessa dagana; vart undir fimm hundruð milljörðum króna. Meðal fyrirtækja sem keypt hafa verið eru bankar, verðbréfafyrirtæki, skipafélög, flugfélög, matvöruverslanir, tískuverslanir og lyfjafyrirtæki. Sumsé, nokkurn veginn allt sem hægt er að kaupa.

Auðvitað undrast útlendingar þetta.

Og spyrja náttúrlega hvaðan allir þessir peningar komi.
Sumir, svo sem Danir, láta sér reyndar ekki nægja að spyrja, heldur gremjast stórlega enda eiga þeir ekki því að venjast að fámennt nýlenduríki þeirra frá fyrri tíð eigi nú bæði haustskipin og kajann, hvað þá að íslenskur fáni prýði virðulegustu verslunarhús þeirra. Menn hafa svo sem brett nasirnar af minna tilefni.

Skýringarnar á þessum strandhöggum íslenskra fjármálaberserkja eru vitaskuld margar en líklega er ein augljósasta ástæðan sú að íslenskt samfélag er frjálslegt og laust við leiðinlegar hefðir og venjur. Allir innviðir samfélagsins eru tiltölulega lausir í sér og hægt að færa til með litlum fyrirvara. Oftsinnis hafa Íslendingar lýst sjálfum sér sem svo að þeir séu svolítið rótlausir í hugsun og þá ekki síður villtir til verka og sjáist ekki fyrir í framkvæmdagleðinni. Á stundum hafa þeir þurft að afsaka sig fyrir að hafa farið fram af meira kappi en forsjá – og þar fyrir utan hafa Íslendingar aldrei verið mjög uppteknir af mótuðum mannasiðum eða njörvað sig niður við hefðbundnar kurteisisvenjur. Þeir eru einstaklingar, fyrst og síðast samsafn sjálfstæðra verkmanna sem telja nágrannaerjur sér miklu fremur til tekna en lasta.

Það er því að vonum að Íslendingar spyrja einskis þegar þeir róta til í beðum nágranna sinna. Þeim er allsendis sama hvað Norðmenn eða Danir segja um verklag sitt; þeir eru vanir að ganga á að giska hraðar til verks en hugurinn megnar. Það hefur sannast á síðustu dögum að þessi ókostur þjóðarinnar – sem sumir kunna að kalla svo – er jafnframt helsti kostur hennar þegar kemur að viðskiptum. Viðskipti eru ekki værðarlegt hjal tveggja manna um kaup og kjör. Viðskipti snúast um áræði, ákveðni og eftirfylgni. Og allt um kring er einhver heillandi áskorun.

Það sakar ekki að nú um stundir er ein fjölmennasta kynslóð landsmanna á sínum besta aldri. Íslensk þjóð er óvenjulega ung miðað við margar meginlandsþjóðirnar sem landsmenn eru að berjast við í kauphöllum álfunnar; aðeins fjórðungur þjóðarinnar er yfir fimmtugsaldri, afgangu landsmanna iðar af lífi og framkvæmdagleði – og það sem meira er; menntun. Í því efni skiptir eitt atriði öðru fremur máli; þessi menntun er ekki sótt á sama stað heldur víða um lönd; jafn vestan hafs sem austan. Fyrir vikið er víðsýnin mikil og sömuleiðis viljinn til að leiða saman ólíkar stefnur og strauma. Í reynd er það svo að fáar þjóðir ferðast jafn mikið og Íslendingar sem halda úti að minnsta kosti tveimur flugfélögum í millilandaferðum – og eiga enn fleiri. Þegar tiltölulega lausbeislað og ungæðislegt samfélag sækir sér mikla og fjölbreytta menntun á skömmum tíma er við því að búast að óþolinmæðin geri vart við sig. Og þegar við þetta allt saman bætist að fjötrar hagkerfisins og viðskiptalífsins eru losaðir burt með látum er ekki nema von að samfélagið taki kipp. Í reynd titri.

Þetta hefur gerst; ný kynslóð hefur sprungið út í nýfengnu frelsi og fjármálaflæði á milli landa. Og horfir ekki um öxl heldur aðeins fram á við. Einkavæðingin í allri sinni mynd kom einfaldlega fram á hárréttum tíma; trúin á einstaklinginn – sumir segja ofsatrúin – fékk loks að njóta sín þegar rétta kynslóðin kvaddi föðurhúsin. Og þegar við bætist að þjóðin er að upplagi sæmilega stygg og óforskömmuð og leitar einatt stystu leiðar að settu marki – og gildir þá einu hverjir standa í vegi hennar – er eðlilegt að gömul nýlenduveldi fari á taugum.

Svo er hitt að fámennið hefur sína kosti.
Á Íslandi eru nær allir ýmist bræður, frændur, kunningjar eða keppinautar. Og því er það svo að allar boðoleiðir eru langtum styttri en milljónasamfélögin eiga að venjast. Íslenkur blaðamaður nær viðtali við forsætisráðherra á fimmtán mínútum. Afgangur þjóðarinnar hittist á næsta niðjamóti.

Íslenskt samfélag er nú um stundir rekið áfram af áræði. Stjórnendur hafa tekið völdin af stjórnmálamönnum og þora ólíkt þeim síðarnefndu að læra af reynslunni, bæði hratt og vel. Vaskleg framganga þeirra vekur athygli, enda verklagið nýtt; þeir taka jafnvel völdin af stjórnum sínum þegar á þarf að halda enda er tíminn fram að næsta stjórnarfundi tapaður tími. Þetta óttaleysi þykir öðrum grunsamlegt. Enda eiga margir nágrannar Íslendinga að venjast óttanum. Norræna bankakreppan situr enn í Dönum og öðrum Skandinövum. Þeir eru varir um sig og hafa ekki enn öðlast sitt fyrra sjálfstraust í viðskiptalífinu. Á meðan spretta upp ung fyrirtæki á Íslandi sem eru langtum fljótari í förum en gömlu kerfin sem lúta lögmálum fyrri tíma um letilega boðleiðir upp og niður pýramídann.

Það er gaman að búa í svona landi.

Ísland er orðin ein stór Kaupmannahöfn.