Mér finnst mér vera endurupplifa rifrildi úr síðustu kosningabaráttu. Þá vogaði ég mér að gagnrýna Borgarahreyfinguna og var mjög gagnrýndur fyrir. Ég var einna helst ásakaður um flokkshollustu og reynt var að láta eins og gagnrýni mín væri því óeinlæg og um leið gagnrýni mín dauð og ómerk. Ég er að upplifa það sama frá stuðningsmönnum Besta flokksins. Nú er rétt að taka fram að ég er ekki að líkja þessum flokkum saman, mér líkaði í raun að mestu vel við Borgarahreyfinguna. Þar var fólk með ýmsar ágætar hugmyndir en einnig nokkrar ákaflega vanhugsaðar. Besti flokkurinn gefur hins vegar ekki upp neinar hugmyndir, stefnur eða skoðanir nema kannski andúð á hinum flokkunum.
Haukur Már orðaði það svo vel í grein sem er miklu betri en það sem ég hef skrifað um málið:
Annars vegar svarar Jón Gnarr með sniðugheitum. Hins vegar eru samferðamenn hans utan flokksins tilbúnir að drepa samræðuna í fæðingu með því að saka þá sem spyrja um að vera ófyndnir, öfundsjúkir, beiskir, bitrir, afturhaldssamir eða blindir af fylgispekt við einhvern annan stjórnmálaflokk.
Allavega þá eru þetta augljós varnarviðbrögð. Í stað þess að velta fyrir sér gagnrýninni þá er hún einfaldlega hunsuð. Allavega vona ég að stuðningsmenn Besta flokksins taki sér tíma og velti fyrir sér hvort að það sé mögulega eitthvað til í gagnrýni á flokkinn. Byrjið á greininni hans Hauks.