Af niðurníðslu Breiðholtsins

Færsla um niðurníðslu Seljahverfisins hefur vakið mikla athygli. Ég verð að játa að þegar ég skrepp þarna yfir þá upplifi ég hverfið ekki svona og mér finnst hann eltast full mikið við hið neikvæða. Matti sá aðra hluti. Það er samt eitthvað til í þessu.

Ég rölti upp í Fell, Berg og Hóla í morgun. Þar, hér og í Seljunum er vissulega vandamál.

Rusl
Fyrsta varnarlína gegn rusli eru íbúarnir. Bæði sem einstaklingar og foreldrar þurfa íbúar að passa upp á að ruslið endi á réttum stað. Húsfélög ættu auðveldlega að geta tekið sig saman um að hirða upp rusl. Það voru frekar fáir sem mættu á hreinsunardag í Breiðholti um daginn og ég játa að ef ég væri ekki hverfisráði þá hefði ég kannski ekkert verið með.

Það vantar mikið upp á að sjoppur og verslanir í Breiðholti líti á það sem sitt mál að halda umhverfi sínu hreinu þó þessi fyrirtæki séu að selja það sem endar með að fjúka um hverfið. Hér í Bökkunum er það 10-11 sem ætti helst að taka á sínum málum. Þaðan fýkur rusl bæði um Bakkahverfi og alveg út í Stekki.

Ljótt verslunarhúsnæði
Í flestum tilvikum eru þetta auð hús en stundum er starfsemi í þeim. Mér skilst að borgin geti skikkað eigendur til þess að halda eignum sínum við og það ætti að gera.

Varðandi autt húsnæði þá myndi ég stinga upp á því að félagasamtök fái inn í þessum húsum gegn smá leigu og því að halda þeim aðeins við.

Leikvellir, græn svæði, stígar, girðingar og þess háttar
Sumt af þessu er í eigu borgarinnar og borgin þarf svo sannarlega að bæta margt. Annað er í eigu íbúa og það mætti ýta á eftir þeim að laga slíkt til. Kannski þyrfti í einhverjum tilvikum styrki til því vissulega getur það verið að íbúar hafi bara ekki efni á slíku.

En ég verð að játa að þegar ég geng um Breiðholtið, sem er nokkuð oft síðustu tíu mánuði sérstaklega, þá hugsa ég oftast um hvað þetta er frábært hverfi. Maður á svo auðvelt með að ganga hvert sem er innan þess en við hérna í Bökkunum erum kannski sérstaklega heppin með staðsetningu. Ég mæli hiklaust með hverfinu þó ég vilji endilega bæði íbúar og stjórnmenn taki þátt í að bæta það enn frekar.